Gabriel Jesus, framherji Manchester City gæti snúið aftur um næstu mánaðarmóti en þetta staðfesti Pep Guardiola, stjóri City á blaðamannafundi í dag.
Jesus meiddist í markalausu jafntefli City og Crystal Palace þann 31. desember síðastliðinn en í fyrstu var óttast að hann yrði frá í tvo mánuði.
Hann gæti hins vegar snúið aftur um mánaðarmótin eins og áður sagði en endurhæfing hans hefur gengið framar vonum.
City situr sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 62 stig og hefur 15 stiga forskot á Manchester United sem er í öðru sæti deildarinnar.
Jesus hefur komið við sögu í 25 leikjum með City á leiktíðinni þar sem hann hefur skorað 10 mörk og lagt upp önnur 2.