Jose Mourinho, stjóri Manchester United og Antonio Conte, stjóri Chelsea hafa rifist eins og hundur og köttur að undanförnu.
Mourinho byrjaði á því að kalla Conte trúð fyrir hegðun sína á hliðarlínunni og Conte svaraði honum með því að segja að Mourinho þjáðist af minnistapi.
Mourinho var ekki ánægður með þessi ummæli og sagði að hann yrði í það minnsta aldrei dæmdur fyrir veðmálasvik og við þessi ummæli kallaði Conte Portúgalan lítinn, lítinn mann.
Eladio Parames, vinur Mourinho og fyrrum samstarfsmaður hans hjá Real Madrid hefur nú blandað sér í málið og lét hann Conte heyra það á dögunum.
„Þessi maður, sem er með mjög vafasama fortíð kallar Mourinho lítinn mann,“ sagði Parames.
„Hann er ekki bara stærri en Conte þegar kemur að því að vinna titla, hann er líka með alvöru hár,“ sagði hann að lokum.