U19 ára landslið Íslands gerði góða ferð til Albaníu í gær en liðið spilaði þar við heimamenn í æfingaleik.
Albanía hafði betur um helgina 1-0 er liðin áttust við en íslensku strákarnir svöruðu fyrir sig í gær.
Arnór Borg Guðjohnsen gerði tvö mörk fyrir íslenska liðið í leiknum en liðið vann að lokum 4-1 sigur. Birkir Heimisson og Viktor Örlygur Andrason komust einnig á blað í sigrinum.
Arnór kom inn sem varamaður í hálfleik en hann er sonur Arnórs Guðjohnsen sem var goðsögn í fótboltanum og er hann bróðir Eiðs Smára Guðjohnsen.
Arnór Borg var að spila sinn fyrsta landsleik en hann er sá fyrsti í Guðjohnsen fjölskyldunni til að skora í fyrsta landsleik.
Faðir hans Arnór lék sinn fyrsta landsleik með U19 ára landsliðinu árið 1979 í 3-1 tapi gegn Ungverjalandi. Bróðir hans, Eiður Smári lék sinn fyrsta landsleik árið 1992 í 2-0 tapi gegn Englandi.
Synir Eiðs Smára þeir Sveinn Aron og Andri Lucas hafa báðir spilað fjölda landsleikja en skoruðu ekki í fyrsta leik. Andri Lucas lék einmitt gegn Albaníu í gær en hann var í byrjunarliði Íslands, hann samdi á dögunum við Real Madrid.
Arnór Borg er í herbúðum Swansea á Englandi en hann lék með Breiðabliki áður en hann hélt út.