fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
433Sport

Kolbeinn svarar forsetanum í ítarlegu einkaviðtali – „Ég hef ekki gert neinum eitt eða neitt“

Hörður Snævar Jónsson
Fimmtudaginn 6. september 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbeinn Sigþórsson, framherji Nantes, í Frakklandi og íslenska landsliðsins er mættur aftur á fullt eftir erfiða tíma. Þessi öflugi framherji hefur náð að æfa síðustu mánuði af krafti.

Kolbeinn er mættur aftur í íslenska landsliðið og kemur líklega við sögu í leikjum liðsins gegn Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni. Ljóst er að Kolbeinn gæti nýst landsliðinu afar vel, hann hefur skorað 22 mörk í 44 landsleikjum. Frábær tölfræði, margir töldu að íslenska landsliðið hefði saknað hans á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar.

Þrátt fyrir að vera kominn á fullt og í góðu líkamlegu formi þá fær Kolbeinn ekki að spila hjá félagsliði sínu, Nantes. Forseti félagsins, Waldemar Kita, sendi Kolbeini kaldar kveðjur í gær. Sakaði hann um óheiðarleika og peningagræðgi.

Meira:
Forseti Nantes fer mjög ófögrum orðum um Kolbein Sigþórsson

Þessi 28 ára gamli sóknarmaður segir forsetann ekki fara með rétt mál, hann hafi ekki getað fara til Panathinaikos í Grikklandi líkt og Kita hélt fram. Gríska liðið sýndi áhuga en formlegt tilboð kom aldrei.

,,Staðreyndin er sú að ég fékk aldrei neitt tilboð upp á borðið frá Panathinaikos þótt þeir hafi sýnt mér mikinn áhuga. Þetta stóð því aldrei á fjárhagslegu hliðinni eða vegna minna krafa. Ég vildi bara fá að byrja spila á ný og sýna hvað í mér býr,“ sagði Kolbeinn í samtali við 433.is í dag um málið. Kolbeinn er að hefja sitt fjórða tímabil í herbúðum Nantes.

Gat farið en Nantes kom í veg fyrir það

Kolbeinn var meðvitaður um það að kannski myndi framtíð hans ekki liggja hjá Nantes og ræddi því við forráðamenn félagsins í vor. Þá var honum tjáð að ánægja væri með hann. ,,Seinast í vor þegar ég ræddi við Nantes þá var mér tjáð að þeir væru ánægðir með standið á mér og að ég væri á góðri leið,“ sagði Kolbeinn við 433.is. Hann kom síðan til æfinga eftir frí og þá hafði allt breyst.

Kolbeinn fékk tilboð sem hefði losað hann frá Nantes um tíma en félagið hafnaði því og útskýrði mál sitt aldrei. ,,Í sumar er mér tilkynnt af nýjum þjálfara að ég sé ekki lengur hluti af hópnum, sem og nokkrir aðrir leikmenn. Á því tímabili fékk ég tilboð inn á borð um að fara á láni og var tilbúinn að fara frá félaginu. Þeir leyfðu mér ekki að komast í burtu, án nokkurra skýringa.“

Yfirlýsingar forsetans eiga ekki við nein rök að styðjast

Forseti Nantes hélt því fram að Kolbeinn væri að hugsa um peninga frekar en að spila fótbolta, þess vegna hafi hann hafnað Panathinaikos.

,,Þessar yfirlýsingar eiga ekki við nein rök að styðjast. Ég myndi alltaf reyna að skoða mína möguleika út frá minni fótboltalegu stöðu en ekki einungis vegna peninga. Það sem er mikilvægast fyrir mig núna, á þessum stað á mínum ferli sem fótboltamaður, er að komast út á völlinn og fá að spila og skora mörk, Ég veit ég get nýst Nantes vel, til þess verð ég að fá tækifæri í liðinu og spila leiki. Það er auðvitað það sem ég vil gera, og vonandi breytist það. Þetta er sögufrægur klúbbur með frábæra stuðningsmenn og ég var kominn á gott ról á miðju sumri og vildi ólmur byrja spila á ný og sanna ég sé enn þá með gæði til að hjálpa liðinu.“

Kita gekk nokkuð hart fram gegn Kolbeini og sagði að leikmönnum Nantes væri illa við framherjann knáa. Hefur Kolbeinn fundið fyrir því? ,,Nei, ég kannast ekki við það og veit hreinlega ekkert hvaðan þetta kemur, ég á í mjög góðu sambandi við leikmenn liðsins og það hefur enginn nefnt það eða ég fundið að þeim líki illa við mig. Enda hef ég ekki gert neinum eitt eða neitt.“

Kolbeinn í sínum síðasta landsleik í júlí, 2016.

Ótrúlega stoltur að vera í þessum hóp

Eins og fram hefur komið er Kolbeinn mættur aftur í landsliðið, hans síðasti landsleikur kom gegn Frakklandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi, sumarið 2016. ,,Þessir dagar hafa verið góðir, virkilega ánægjulegt að vera kominn aftur í landsliðsumhverfi. Þetta er alltaf jafn gaman og ég er ótrúlega stoltur af því að vera í þessum leikmannahópi,“ sagði Kolbeinn við 433.is í dag.

Gott andrúmsloft hefur einkennt landsliðið síðustu ár, hvernig er að vera mættur aftur í það? ,,Jú, andinn í leikmannahópnum er frábær, það hefur greinilega ekkert breyst. Hér eru allir samstilltir á að halda áfram á þeirri braut sem landsliðið hefur verið á síðustu ár.“

Fyrstu kynni af Hamren góð

Erik Hamren er á leið í sitt fyrsta verkefni með landsliðið en hann tók til starfa í sumar. Hamren fær verðugt verkefni að fylla í skarð Heimis Hallgrímssonar og þess góða árangurs sem liðið náði á hans vakt. Kolbeinn kann vel að meta fyrstu kynni sín af Hamren og hvaða trú hann hefur á sér.

,,Fyrstu kynnin eru góð. Hann hafði samband við mig fyrir nokkrum vikum og við ræddum saman um komandi verkefni, markmiðin og það hvernig fótbolta hann vill spila. Það er gott að finna að hann kann að meta mig sem leikmann og vonandi fæ ég tækifæri til að sýna hvað í mér býr,“ sagði Kolbeinn en hvernig metur hann möguleikana í Þjóðadeildinni þar sem Ísland er með Sviss og Belgíu í riðli?

,,Þetta eru auðvitað tvær hörkuþjóðir sem eru á meðal þeirra bestu í álfunni. Við höfum líka sýnt hvers við erum megnugir og erum í A-deild á sömu forsendum og Belgar og Svisslendingar. Við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við getum mætt sterkum þjóðum og náð góðum úrslitum.“

Þrautaganga sem tekið hefur á

Kolbeinn hefur náð að æfa virkilega vel síðustu vikur en nú vantar hann bara að fá leikæfingu, mínútur undir beltið til að finna sitt gamla form.

,,Ég er í mjög góðu standi og er tilbúinn til að spila, hef verið nánast meiðslalaus í 8 mánuði núna og líður vel. Ég get ekki beðið eftir þessum leikjum. Vonandi fæ ég einhverjar mínútur, ég er allavega klár í að koma inn á og vonandi setja eitt mark, það verður líka gott að vera kominn með einhverjar mínútur í skrokkinn þegar ég sný aftur til Nantes,“ sagði framherjinn í samtali við 433.is í dag.

Endurhæfingin Kolbeins hefur verið löng og ströng, hann viðurkennir að þetta hafi tekið mikið á en að komast aftur í landsliðið var einn af þeim hlutum sem hélt honum gangandi.

,,Það var klárlega eitt af markmiðunum í endurhæfingunni. Þetta gefur manni virkilega mikið að spila og vera í kringum þetta lið. Ég er stoltur að spila fyrir Ísland, maður fær gæsahúð í hvert einasta skipti sem maður klæðist landsliðstreyjunni. Fyrst og fremst er ég auðvitað bara ánægður með að vera orðinn heill heilsu. Þetta hefur verið mikil þrautarganga og hefur tekið mikið á, ég get ekki neitað því, en núna lítur þetta bara mjög vel út og ég horfi björtum augum fram á veginn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Í gær

Ange heimtar virðingu frá sparkspekingum

Ange heimtar virðingu frá sparkspekingum
433Sport
Í gær

England: United fékk skell á Old Trafford – Chelsea mistókst að skora

England: United fékk skell á Old Trafford – Chelsea mistókst að skora
433Sport
Í gær

Tjáir sig um slagsmál sem fáir hafa heyrt um: Var aðeins tímaspursmál – ,,Vorum að fá okkur í glas og hann endaði kvöldið með glóðarauga“

Tjáir sig um slagsmál sem fáir hafa heyrt um: Var aðeins tímaspursmál – ,,Vorum að fá okkur í glas og hann endaði kvöldið með glóðarauga“
433Sport
Í gær

Eigendur Manchester United gefa grænt ljós á brottför

Eigendur Manchester United gefa grænt ljós á brottför