Jón Daði Bövðarsson er í ítarlegu viðtali við heimasíðu Reading en þar kemur fram margt áhugavert.
Jón Daði fer yfir það með hvaða liði hann hélt áður á Englandi en Jón Daði er að hefja sitt annað tímabil í herbúðum Reading.
,,Mér var bara sagt að halda með Manchester United, það var fyrsta liðið sem ég hélt með þegar ég var ungur. Maður ólst upp við að horfa á Beckham, Scholes, Giggs og marga góða leikmenn,“ sagði Jón Daði.
,,Draumur minn var alltaf að spila á Englandi frá þeirri stundu, það er draumur að rætast að spila hérna.“
Jón Daði þekkti vel til Reading áður en hann kom til félagsins enda Íslendingar gert það gott hjá félaginu.
,,Ég man eftir Reading í ensku úrvalsdeildinni, ég man eftir Brynjari Birni og Ívari Ingimarssyni þegar þeir voru hérna, svo kom Gylfi og ég man eftir að hafa séð hann gegn Liverpool í bikarnum. Hann skoraði úr vítaspyrnu og Reading vann.“
,,Ég vissi mikið um félagið áður en ég kom hingað, ég er mjög sáttur að vera hérna.“