Nokkrir stuðningsmenn Cardiff City í ensku úrvalsdeildinni urðu sér til skammar um helgina er liðið mætti Bournemouth.
Ryan Fraser, leikmaður Bournemouth, átti afar góðan leik og skoraði fyrra mark liðsins í 2-0 sigri.
Stuðningsmenn Cardiff voru eitthvað ósáttir með skoska vængmanninn og köstuðu smápeningum í áttina að honum.
Fraser þurfti sjálfur að tína upp peningana og sýna dómara leiksins, Kevin Friend enda skapaðist hætta í kringum leikmanninn.
Cardiff á von á sekt frá enska knattspyrnusambandinu og gætu einhverjir stuðningsmenn átt von á lífstíðarbanni á heimavelli liðsins í Wales.