Það verður áhugavert að fylgjast með Cardiff City á leiktíðinni sem er að hefjast í ensku úrvalsdeildinni. Með liðinu leikur landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og hefur gert undanfarin sjö ár eftir að hann var keyptur frá Coventry. Cardiff hafnaði í öðru sæti Championship-deildarinnar á síðustu leiktíð og tryggði sér því beint sæti í úrvalsdeildinni og slapp við umspil. Liðið komst síðast í úrvalsdeildina árið 2013 en féll ári síðar eftir afar slæmt gengi.
Cardiff á síðustu leiktíð:
Sæti: 2
Mörk skoruð: 69
Mörk fengin á sig: 39
Skot að meðaltali í leik: 14
Gul spjöld: 82
Rauð spjöld: 1
Vel heppnaðar sendingar: 59,4%
Það er ljóst að Cardiff-menn eiga erfitt verkefni fyrir höndum í vetur og verður liðið að varast að gera ekki það sama og fyrir fjórum árum. Á fyrri hluta deildarkeppninnar tókst liðinu aðeins að vinna þrjá leiki sem kostaði félagið á endanum sætið í deildinni.
Neil Warnock er stjóri Cardiff en hann er kannski þekktastur fyrir það að starfa í neðri deildunum. Warnock vill að sínir menn geri allt til þess að ná í stig þó að það sé aðeins eitt. Honum er alveg sama hvernig liðið fer að því, sem getur verið jákvætt.
Lykillinn:
Mikið þarf að ganga upp hjá Cardiff ef liðið ætlar að halda sér í deild þeirra bestu. Á síðustu leiktíð fengu leikmenn liðsins dæmd á sig 82 gul spjöld sem er áhyggjuefni fyrir þá. Leikmenn komast ekki upp með eins mikið í úrvalsdeildinni og í neðri deildunum. Warnock þarf því að hafa betri stjórn á sínum mönnum.
Vörnin mun eiga stóran þátt í gengi liðsins á leiktíðinni. Þeir Sean Morrison og Sol Bamba voru frábærir aftast þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild.
Óvíst er hver mun skora mörkin fyrir Cardiff en liðið mun væntanlega treysta á Kenneth Zohore. Hann skoraði þó aðeins níu deildarmörk á síðustu leiktíð og tólf tímabilið áður.
Leikmenn Cardiff þurfa að spila sem ein liðsheild enda lítið um stjörnur hjá félaginu og ekki hægt að treysta á að einstaka leikmenn vinni leiki upp á sitt einsdæmi með heimsklassa frammistöðu. Fyrst og fremst þarf varnarleikurinn að vera traustur og svo þarf að nýta föstu leikatriðin.
Aron Einar Gunnarsson:
Aron er ekki með fyrirliðabandið hjá Cardiff en hann er samt fyrirliði. Hljómar furðulega en er engu að síður staðreynd. Hann hefur verið hjá liðinu í sjö ár og á að baki 258 leiki fyrir liðið og hefur skorað 24 mörk. Fáir láta jafn mikið í sér heyra og þessi litríki miðjumaður sem er að sjálfsögðu fyrirliði íslenska landsliðsins.
Cardiff-menn verða að treysta á að okkar maður haldist heill og hann mun þá væntanlega leika stórt hlutverk þegar liðið berst fyrir því að halda sér í efstu deild. Liðið þarf einmitt á leikmönnum eins og Aroni að halda. Það er aldrei neitt eftir á vellinum þegar flautað er til loka leiks.
Hægt er að fullyrða og hóta Cardiff því að ef Aron spilar ekki mikið í vetur þá muni liðið falla rakleiðis niður um deild. En Warnock er mikill aðdáandi Arons og veit hversu mikilvægur hann er. Aron hefur sýnt það með landsliðinu að hann kann vel við að kljást við stærstu stjörnur heims sem Cardiff ætti að nýta sér og vonandi helst hann meiðslalaus í vetur.
Tölfræði Arons á síðustu leiktíð:
Leikir: 20
Mörk: 1
Stoðsendingar: 1
Aron er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum og leikmönnum Cardiff og var hann valinn besti leikmaður liðsins fyrir árið 2017 af báðum þessum hópum. Það segir mikið um framlag hans og mikilvægi.
Aron hefur einnig reynslu úr úrvalsdeildinni. Hann lék alls 23 deildarleiki þegar Cardiff var þar fyrir fjórum árum.
Staðan á leikmannahópnum:
Cardiff hefur ekki keypt mikið í sumar en liðið hefur þó fengið til sín fjóra leikmenn sem eiga að styrkja hópinn.
Josh Murphy var keyptur frá Norwich, Greg Cunningham frá Preston, Bobby Reid frá Bristol City og markvörðurinn Alex Smithes frá Queens Park Rangers. Þetta eru engar stórstjörnur og hafa hinir nýliðarnir, Fulham og Wolves, styrkt sig mun meira og eytt háum fjárhæðum í leikmenn.
Erfitt að sjá hvaðan mörkin eiga að koma. Markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð var hinn fyrrnefndi Zohore sem gerði aðeins níu mörk. Það hefði einnig verið betra fyrir liðið að kaupa fleiri leikmenn með reynslu úr efstu deild og eins og er eru horfurnar ekki góðar.
Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að aðeins þrír leikmenn hafa yfirgefið félagið og það er oft sagt að of margar breytingar skapi vandræði.
Leikmenn inn:
Josh Murphy (Norwich) – Keyptur
Greg Cunningham (Preston) – Keyptur
Alex Smithies (QPR) – Keyptur
Bobby Reid (Bristol City) – Keyptur
Leikmenn út:
Greg Halford – Samningslaus
Omar Bogle (Birmingham City) – Lán
Lee Camp (Birmingham City) – Lán
Spá fyrir tímabilið 2018/2019:
Því miður fyrir Aron þá er líklegt að Cardiff fari beint niður í Championship. Liðið er einfaldlega ekki með nógu góða leikmenn til þess að halda sæti sínu í efstu deild og margt þarf að ganga upp til að fall verði ekki raunin.
Möguleiki Cardiff liggur í jafnteflunum. Ef liðinu tekst að sækja nokkur dýr stig hér og þar er aldrei að vita hvernig taflan lítur út á næsta ári. Á blaði er liðið hins vegar á leið beint niður og spáum við því að Cardiff endi tímabilið á botni deildarinnar, í 20. sæti.
Gylfi mun eflaust leika stórt hlutverk í liðinu á tímabilinu en Marco Silva er nú tekinn við stjórn liðsins og hann er aðdáandi íslenska landsliðsmannsins. Miklar væntingar eru gerðar til Everton sem hafnaði í áttunda sæti deildarinnar á síðasta tímabili.
Everton á síðustu leiktíð:
Sæti: 8
Mörk skoruð: 44
Mörk fengin á sig: 58
Skot að meðaltali í leik: 9,4
Gul spjöld: 51
Rauð spjöld: 3
Vel heppnaðar sendingar: 74,3%
Everton spilar undir stjórn Marco Silva á leiktíðinni en hann tók við keflinu í sumar af Sam Allardyce. Gylfi hefur sjálfur staðfest að margar breytingar eigi sér stað hjá félaginu sem hefur haft þrjá knattspyrnustjóra á einu ári. Ronald Koeman fékk Gylfa til liðsins eftir slæma byrjun í fyrra. Þegar hann var rekinn tók Allardyce við.
Pressan er augljóslega mikil á Silva og félögum. Liðið hefur eytt fúlgum í leikmenn undanfarin tvö tímabil og stefnan er sett á Evrópusæti í vetur. Everton hefur allt til að geta náð góðum árangri og spilað flottan fótbolta en sumt þarf að breytast.
Helst ber að nefna frammistöðu liðsins gegn stórliðum deildarinnar. Liðið tapaði átta af tólf leikjum gegn „hinum stóru sex“ á síðasta tímabili og oftar en ekki var tapið stórt. Liðið fékk til að mynda á sig tíu mörk í tveimur leikjum gegn Arsenal.
Lykillinn:
Til að ná góðum árangri verður Everton að ná stöðugleika. Liðið byrjaði tímabilið vel í fyrra og vann 1-0 sigur á Stoke og gerði svo 1-1 jafntefli við Manchester City. En eftir það vann Everton aðeins einn af átta leikjum sínum, 2-1 sigur á Bournemouth í sjöttu umferð.
Mjög mikilvægt er fyrir Silva að slípa þetta lið saman á stuttum tíma en hann hefur ekki fengið mikinn tíma til að vinna með þessum leikmönnum í sumar. Ronald Koeman keypti marga leikmenn fyrir síðasta tímabil og það kom augljóslega niður á liðinu. Skipulagið var lítið og leikmenn þekktu hver annan ekki neitt. Gengi liðsins lagaðist töluvert eftir að Allardyce tók við liðinu af Koeman en fram að því var vonleysið algert.
Leikmenn eins og Gylfi, Richarlison, Theo Walcott, Cenk Tosun, Seamus Coleman, Lucas Digne og Michael Keane verða að stíga upp í leikjum liðsins og verður athyglisvert að sjá hvernig byrjunarliðið mun líta út í fyrstu umferð.
Gylfi Þór Sigurðsson:
Óhætt er að fullyrða að Gylfi Sigurðsson sé maðurinn sem á að koma Everton í Evrópusæti. Allir vita hversu góður knattspyrnumaður hann er. Gylfi getur skilað mörkum og stoðsendingum þó að hann hafi átt ansi rólegt fyrsta tímabil hjá liðinu.
Gylfi skoraði aðeins fjögur mörk í deild á sinni fyrstu leiktíð á Goodison Park og lagði upp önnur þrjú. Stöðugleiki hefur ávallt verið lykilatriði í leik Gylfa og breytingarnar hjá Everton síðasta sumar hjálpuðu honum ekki. Gylfi var oft notaður á vængnum eftir að Wayne Rooney kom frá Manchester United en það er ekki hans sterkasta staða. Vonandi áttar Silva sig á því.
Gylfi þarf að fá að vera aðalmaðurinn hjá liðinu. Hann ætti að taka allar auka-, horn- og vítaspyrnur enda einn besti spyrnumaður deildarinnar. Um leið og hann finnur fyrir tiltrú og sjálfstraustið kemst í gang þá stöðvar hann fátt því gæðin eru til staðar. Spil Everton á að fara í gegnum leikmenn eins og Gylfa sem kunna að búa sér til pláss og eru með eitraðan skot- og sendingarfót.
Tölfræði Gylfa á síðustu leiktíð:
Leikir: 27
Mörk: 4
Stoðsendingar: 3
Sendingar: 700
Fyrirgjafir: 150
Vel heppnaðar fyrirgjafir: 23%
Skot: 39
Skot á mark: 12
Gylfi ætti að smellpassa inn í hugmyndafræði Silva sem vill spila sókndjarfan fótbolta og skemmta áhorfendum. Ef hann breytir of miklu og skiptir um leikkerfi í hverjum leik þá gætu skapast vandræði fyrir Gylfa og aðra leikmenn.
Staðan á leikmannahópnum:
Everton hefur losað sig við marga leikmenn í sumar en tveir góðir voru keyptir á háar upphæðir. Sóknarmaðurinn Richarlison var keyptur frá Watford en hann var frábær undir stjórn Silva þegar þeir unnu saman þar. Richarlison er aðeins tvítugur og var einn allra besti leikmaður Watford á síðustu leiktíð.
Everton keypti einnig bakvörðurinn Lucas Digne frá Barcelona. Hann lék áður með Lille, Paris St. Germain og Roma og hefur því mikla reynslu þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára. Það er góður fengur fyrir liðið.
Fjölmargir leikmenn sem þóttu ekki standa undir væntingum á síðasta tímabili eru farnir annað. Má þar nefna Kevin Mirallas, Ashley Williams, Ramiro Funes Mori, Wayne Rooney og Davy Klaassen.
Leikmenn inn:
Richarlison (Watford) – Keyptur
Lucas Digne (Barcelona) – Keyptur
Joao Virginia (Arsenal) – Keyptur
Leikmenn út:
Joel Robles (Real Betis) – Samningslaus
Jose Baxter – Samningslaus
David Henen – Samningslaus
Ramiro Funes Mori – Seldur
Wayne Rooney – Seldur
Luke Garbutt (Oxford United) – Lán
Henry Onyekuru (Galatasaray) – Lán
Shani Tarashaj (Grasshopper Zurich) – Lán
Davy Klaassen (Werder Bremen) – Keyptur
Ashley Williams (Stoke City) – Lán
Antonee Robinson (Wigan) – Lán
Kevin Mirallas (Fiorentina) – Lán
Spá fyrir tímabilið 2018/2019:
Ef Silva nær tökum á liðinu snemma og finnur sitt sterkasta byrjunarlið er útlitið afar bjart. Everton er með leikmannahóp sem á að spila í Evrópukeppni og er launakostnaður liðsins einnig mjög hár.
Margir setja spurningarmerki við komu Silva en hann var rekinn frá Watford á síðustu leiktíð eftir að hafa misst klefann stuttu eftir að hann var orðaður við Everton sem leitaði þá að stjóra. Ef engin vandamál koma upp utan vallar og liðið nær að sýna stöðugleika þá er óhætt að spá liðinu sjöunda sæti deildarinnar.
Jóhann Berg Guðmundsson mun líklega koma reglulega við sögu hjá liði Burnley á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. Jóhann hefur fest sig í sessi undir stjórn Sean Dyche hjá Burnley eftir að hann kom til félagsins frá Charlton Athletic árið 2016.
Fróðlegt verður að fylgjast með Jóa Berg og félögum hans á leiktíðinni en liðið hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar á síðasta tímabili.
Burnley á síðustu leiktíð:
Sæti: 7
Mörk skoruð: 36
Mörk fengin á sig: 39
Skot að meðaltali í leik: 9,9
Gul spjöld: 65
Rauð spjöld: 0
Vel heppnaðar sendingar: 70,5 %
Burnley hefur leikið vonum framar undanfarin tvö tímabil undir leiðsögn Dyche sem tók við liðinu árið 2012. Knattspyrnan sem hinir fjólubláu spila er ekki mikið fyrir augað en liðið nær árangri og sannaði það á síðustu leiktíð.
Ef líkja ætti íslenska landsliðinu við lið í ensku úrvalsdeildinni þá yrði það Burnley. Liðið er með stóra stráka innanborðs sem eru tilbúnir að „deyja fyrir klúbbinn.“
Lykillinn:
Burnley hóf síðustu leiktíð af krafti og liðið virkaði ósigrandi á köflum. Þetta sýndu þeir með því að vinna ótrúlegan 3-2 sigur á þáverandi Englandsmeisturum Chelsea í fyrsta leiknum.
Eftir tap gegn West Bromwich Albion í annarri umferð spilaði liðið sex leiki án þess að tapa en nokkrir þannig kaflar komu upp á leiktíðinni þar sem liðið var alltaf líklegt til þess að ná í stig.
Lykillinn að góðu gengi Burnley í vetur er skipulag og agaður varnarleikur. Liðið fékk aðeins á sig 39 mörk á síðustu leiktíð og til samanburðar fékk stórlið Arsenal á sig 51 mark og Everton, sem endaði sæti neðar en Burnley, fékk á sig 58. Dyche fær leikmenn sína til þess að leggja allt í sölurnar.
Jóhann Berg Guðmundsson:
Jóhann hentar leikstíl Burnley fullkomlega og mun hann leika stórt hlutverk á leiktíðinni. Íslenski landsliðsmaðurinn er ekki þekktur fyrir að skora mörg mörk en hann gerði alls tvö í deildinni á síðasta tímabili. Hann lagði hins vegar upp átta mörk fyrir liðið og átti alls 213 fyrirgjafir í 35 leikjum.
Það sem hentar Jóhanni hvað best er einfaldleikinn í leikstíl Burnley. Hann er kantmaður sem gerir einfalda hluti mjög vel og er með eitraðan vinstri fót, hvort sem hann er notaður til þess að skjóta að marki eða gefa á samherja.
Tölfræði Jóhanns á síðustu leiktíð:
Leikir: 35
Mörk: 2
Stoðsendingar: 8
Sendingar: 805
Fyrirgjafir: 213
Vel heppnaðar fyrirgjafir: 30%
Skot: 54
Skot á mark: 18
Jóhann er ekki aðeins framúrskarandi knattspyrnumaður heldur fellur hann vel að hugmyndafræði Dyche og það hefur sýnt sig. Jóhann hleypur mjög mikið fyrir sitt lið og gerir fá mistök í leikjum.
Hann leikur stórt hlutverk bæði varnar- og sóknarlega og verður að öllum líkindum fastamaður í liðinu á komandi tímabili.
Staðan á leikmannahópnum:
Burnley hefur ekki styrkt leikmannahópinn mikið í sumar og kannski engin ástæða til eftir frábært tímabil. Dyche veit hvað hentar honum best og leitar iðulega til enskra leikmanna. 14 leikmenn í aðalliði Burnley eru enskir og aðeins sjö leikmenn eru ekki breskir. Jóhann er hluti af þeim fámenna hópi.
Liðið festi kaup á framherjanum Matej Vydra fyrr í sumar en hann spilaði síðast með Derby County og var öflugur markaskorari. Fróðlegt verður að sjá hvernig Vydra stendur sig því hann er ekki jafn hávaxinn og aðrir framherjar Burnley og hann býr einnig yfir meiri hraða. Kaupin á Vydra minna þó óþægilega mikið á kaup liðsins á Nahki Wells síðasta sumar. Wells skoraði grimmt fyrir Huddersfield en kom aðeins níu sinnum við sögu hjá Burnley.
Ben Gibson er leikmaður sem mun eflaust hjálpa til varnarlega en hann var keyptur frá Middlesbrough í sumar og á að baki 185 deildarleiki fyrir liðið.
Leikmenn inn:
Vinnie Steels (York City) – Á frjálsri sölu
Ben Gibson (Middlesbrough) – Keyptur
Joe Hart (Man City) – Keyptur
Matej Vydra (Derby County) – Keyptur
Leikmenn út:
Dean Marney – Samningslaus
Scott Arfield – Samningslaus
Tom Anderson – Samningslaus
Chris Long – Samningslaus
Josh Ginnelly – Samningslaus
Conor Mitchell (St. Johnstone) – Lán
Aiden Stone (Lancaster City) – Lán
Spá fyrir tímabilið 2018/2019:
Það er erfitt að spá Burnley betra gengi en á síðustu leiktíð er liðið kom öllum á óvart og hafnaði í sjöunda sæti og vann sér inn þáttöku í Evrópudeildinni. Ástríðan hjá leikmönnum Burnley er meiri en hjá flestum öðrum og er því ómögulegt að spá liðinu falli.
Ef allar hliðar eru skoðaðar er líklegt að liðið endi tímabilið um miðja deild eða í 11. sæti deildarinnar. Önnur lið hafa styrkt sig meira en Burnley í sumarglugganum en eins og áður kom fram eru fá lið með jafn þéttan og vel skipaðan hóp og Dyche og félagar.