Brighton í ensku úrvalsdeildinni er að fá mikinn liðsstyrk fyrir komandi átök á næstu leiktíð.
Brighton hefur fest kaup á Alireza Jahanbakhsh frá hollenska félaginu AZ Alkmaar.
Brighton staðfesti komu leikmannsins í kvöld en hann var fáanlegur fyrir 17 milljónir punda og er nú dýrasti leikmaður í sögu félagsins.
Jahanbakhsh er íranskur landsliðsmaður en hann varð fyrsti asíski leikmaðurinn til að fá gullskóinn í Hollandi.
Jahanbakhsh er 24 ára gamall en hann gerði 21 deildarmark á síðustu leiktíð og var markakóngur deildarinnar.
Margir markakóngar í Hollandi hafa gert sér leið til Englands síðustu ár en það hefur gengið misvel hjá þeim á Englandi.
Nefna má framherjann Vincent Janssen sem fór til Tottenham en honum gekk afar illa á sinni fyrstu leiktíð.