Frakkland tryggði sér heimsmeistaratitilinn í gær eftir sigur á Króatíu í úrslitaleiknum á mótinu í Rússlandi.
Það var mikið fagnað þessum sigri Frakklands í heimalandinu en liðið vann síðast keppnina árið 1998.
Lögreglan í París hafði mikið að gera um nóttina í gær og handtók alls 102 manns eftir að fagnaðarlætin höfðu farið algjörlega úr böndunum.
Lögreglan neyddist til þess að nota táragas á götum Parísar til að koma í veg fyrir frekari slagsmál og brjálæði.
Það var brotist inn í verslanir í borginni seint um kvöld og þurfti lögreglan að hafa sig alla við.
Fjögur þúsund lögreglumenn voru sendir á vettvang víðs vegar um borgina og brutust út slagsmál við borgarbúa.
Fimmtugur maður lét lífið í fagnaðarlátunum í gær en hann hálsbrotnaði eftir að hafa stokkið ofan í á. Talið er að hann hafi verið undir áhrifum áfengis.
Annar maður á þrítugsaldri lét þá einnig lífið en hann ók bifreið sinni á tré og var úrskurðaður látinn skömmu síðar.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af látunum sem áttu sér stað í gær.