Íslenska landsliðið leikur gegn Argentínu á HM nú rétt í þessu en það var verið að flauta til hálfleiks.
Argentína komst yfir á 18. mínútu leiksins í dag en Sergio Aguero skoraði þá gott mark eftir misheppnað skot Marcos Rojo.
Það tók okkar menn ekki langan tíma að jafna en Alfreð Finnbogason skoraði þá alvöru framherjamark fyrir Ísland.
Alfreð skoraði með fyrsta skoti Íslands á HM en eins og allir vita er liðið að leika í keppninni í fyrsta sinn.
Það þurfti aðeins eitt skot á mark og okkar menn skoruðu sem er geggjuð tölfræði.
Gylfi Þór Sigurðsson reyndi á Willy Caballero í marki Argentínu síðar í hálfleiknum en skot hans var varið.