Real Madrid fagnaði sigri í Meistaradeild Evrópu um helgina en liðið mætti Liverpool í úrslitum í Úkraínu.
Leikurinn byrjaði fjöruglega en eftir aðeins hálftíma þurfti lykilmaður Liverpool, Mohamed Salah, að yfirgefa völlinn meiddur. Mikið áfall fyrir Liverpool en stuttu síðar missti Real mann af velli eftir meiðsli, bakvörðinn Dani Carvajal. Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn en snemma í þeim síðari komust spænsku risarnir yfir. Loris Karius gerði sig þá sekan um hörmuleg mistök í marki Liverpool er hann kastaði boltanum nánast í Karim Benzema sem skoraði.
Sadio Mane jafnaði þó fyrir Liverpool skömmu síðar eftir hornspyrnu og entist forysta Real í aðeins fjórar mínútur. Þá var röðin komin að varamanninum Gareth Bale sem kom inná sem varamaður á 61. mínútu leiksins.
Þremur mínútum eftir það skoraði Bale stórkostlegt hjólhestaspyrnumark eftir fyrirgjöf Marcelo. Bale bætti svo við öðru marki á 83. mínútu með föstu skoti fyrir utan teig sem Karius hefði átt að verja en hann missti boltann inn.
Real Madrid fagnaði í höfuðborg Spánar í gær og var mikið mannhaf á svæðinu.