Tveir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í dag og var þeim að ljúka núna rétt í þessu.
Arsenal tók á móti West Ham en gestirnir byrjuðu betur og voru óheppnir að vera ekki yfir þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.
Það var svo Naco Monreal sem opnaði markareikninginn á 51. mínútu áður en Marko Arnautovic jafnaði metin fyrir West Ham á 64. mínútu.
Aaron Ramsey kom Arsenal svo aftur yfir með marki á 82. mínútu áður en Alexandre Lacazette bætti þriðja markinu við á 85. mínútu.
Lacazette var svo aftur á ferðinni á 89. mínútu þegar hann bætti fjórða markinu við og lokatölur því 4-1.
Arsenal er áfram í sjötta sæti deildarinnar, nú 6 stigum á eftir Chelsea sem er í fimmta sætinu en West Ham er komið í fimmtánda sæti deildarinnar með 35 stig, 6 stigum frá fallsæti.
Stoke tók svo á móti Burnley í hörkuleik þar sem að Badou Ndiaye kom heimamönnum yfir strax á 11. mínútu.
Ashley Barnes jafnaði hins vegar metin fyrir Burnley á 62. mínútu og lokatölur því 1-1 í hörkuleik.
Jóhann Berg Guðmundsson var á sínum stað í byrjunarliði Burnley og spilaði allan leikinn á kantinum en liðið er áfram í sjöunda sæti deildarinnar með 53 stig, fjórum stigum á eftir Arsenal.
Stoke er hins vegar í nítjánda sæti deildarinnar með 29 stig, nú 5 stigum frá öruggu sæti.
Úrslit og markaskorara má sjá hér fyrir neðan.
Arsenal 4 – 1 West Ham
1-0 Nacho Monreal (51′)
1-1 Marko Arnautovic (64′)
2-1 Aaron Ramsey (82′)
3-1 Alexandre Lacazette (85′)
4-1 Alexandre Lacazette (89′)
Stoke 1 – 1 Burnley
1-0 Badou Ndiaye (11′)
1-1 Ashley Barnes (62′)