Chelsea tók á móti Tottenham í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag en leiknum lauk með 3-1 sigri gestanna.
Það var Alvaro Morata sem skoraði eina mark Chelsea í dag en Christian Eriksen og tvenna frá Dele Alli sáu um að tryggja Tottenham öll þrjú stigin í leiknum.
Antonio Conte, stjóri Chelsea var að vonum svekktur enda fátt sem bendir til þess að Chelsea spili í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
„Við urðum að vinna í dag en það gekk ekki eftir og við erum allir vonsviknir. Við munum hins vegar halda áfram að berjast þangað til tímabilið klárast,“ sagði Conte.
„Við spiluðum ekki illa. Við fengum betri færi en misstum einbeitinguna. Í svona mikilvægum leik er dýrt að gefa þrjú mörk. Við höfum ekki verið jafn heppnir og við vorum í fyrra.“
„Önnur lið hafa bætt sig og við höfum ekki verið nægilega stöðugir. Svona er þetta stundum en við munum halda áfram. Við þurfum að vinna þá leiki sem við eigum eftir og vona að aðrir misstígi sig,“ sagði hann að lokum.