Paul Pogba, miðjumaður Manchester United er að ganga í gegnum erfiða tíma þessa dagana.
Miðjumaðurinn hefur misst sæti sitt í byrjunarliði United og þá virðist samband hans við Jose Mourinho, stjóra liðsins ekki vera gott.
Mourinho er ekki ánægður með viðhorf leikmannsins og finnst hann eyða of miklum tíma í að hugsa um ímynd sína og það pirrar Portúgalann.
Yahoo Sports greinir frá því í dag að Mourinho hafi rætt við Didier Deschamps, stjóra franska liðsins og sagt honum að hann hafi áhyggjur af Pogba.
Deschamps er sama sinnis og ákvað því að bekkja leikmanninn gegn Kólumbíu í vináttuleik á dögunum.
Mourinho er hins vegar ekki á þeim buxunum að selja Pogba strax enda telur hann leikmanninn búa yfir miklum hæfileikum.