Ísland og Perú mættust í vináttuleik í gærdag en leiknum lauk með 3-1 sigri Perú.
Það var Jón Guðni Fjóluson sem skoraði eina mark Íslands í leiknum en Renato Tapia, Raul Ruidiaz og Jefferson Farfan skoruðu mörk Perú.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska liðsins var ágætlega sáttur með sína menn, þrátt fyrir tapið.
„Ég er aðeins svekktur með seinni hálfleikinn. Við vorum búnir að koma okkur ágætlega inn í fyrri hálfleikinn eftir hrikalega byrjun á leiknum,“ sagði Heimir í samtali við RÚV eftir leikinn.
„Að fá á sig mark, snemma leiks á móti svona liði er slæmt og planið var að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn en fyrsta korterið var lélegt hjá okkur og þeir voru einhvernvegin alltaf á undan okkur og við náðum aldrei að klukka þá.“
„Við höfðum mjög gott af þessum leik gegn Perú. Þeir eru mjög hraðir og skemmtilegir en samt mjög skipulagðir og gríðarlega duglegir. Þú færð í raun smjörþefinn af því hvernig það er að spila gegn virkilega góðri, Suður-Amerískri þjóð.“
„Þetta var mjög góður undirbúningur fyrir okkur fyrir Argentínu leikinn og við fengum fullt af svörum í þessari ferð og núna munum við bara halda áfram að fylgjast með þeim leikmönnum sem koma til greina fyrir lokamótið. Enginn sem spilaði þennan leik fer með til Rússlands, sagði Heimir í léttu gríni að lokum í samtali við RÚV.
Viðtalið við hann má sjá með því að smella hér en það byrjar á eftir rúmlega tvær mínútur.