England tók á móti Ítalíu í vináttuleik í gærdag en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Jamie Vary kom enska liðinu yfir í fyrri hálfleik en Lorenzo Insigne jafnaði metin fyrir Ítala með marki úr vítaspyrnu undir lok leiksins.
Ítalir fengu vítaspyrnuna á silfurfati en Denis Aytekin, dómari leiksins dæmdi víti eftir að hafa stuðst við VAR myndbandstæknina.
Vítið var afar ódýrt og eru flestir á því að dómurinn hafi verið rangur, þótt myndbandstæknin hafi verið notuð í þessu tilfelli.
„Svona er þetta bara,“ sagði Vardy eftir leik.
„Það á víst að nota þetta á HM og það er lítið sem við getum gert í því. Fyrir mér þá tefur þetta leikinn og gerir lítið annað en að rugla bæði leikmenn og stuðningsmennina í rýminu.“
„Þetta tekur of langan tíma, kannski mun það breytast í framtíðinni, hver veit en eins og staðan er í dag er ég ekki ánægður með þetta,“ sagði Vardy að lokum.