Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool stýrir í dag U18 ára liði félagsins.
Hann hefur gert fína hluti með liðið og þá er U19 ára lið félagsins komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar ungmennaliða.
Gerrad segist vera duglegur að hringja í Jurgen Klopp, stjóra Liverpool og fá ráð hjá honum en hann segir það sé mikill munur á því að vera knattspyrnustjóri og svo leikmaður.
„Ég hef haft samband við Klopp í mörg skipti. Hann er mun reynslumeiri en ég og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt sem þjálfari. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir mig, sem er nýr í þessu fagi að geta leitað til Klopp,“ sagði Gerrard.
„Mér líkar þetta mjög vel og ég nýt þess að þjálfa en þetta er mjög ólíkt því að vera leikmaður og það er kannski það sem hefur komið mér mest á óvart, hversu ótrúlega mikill munur er á því að vera þjálfari og leikmaður.“
„Ég ber mun meiri virðingu fyrir knattspyrnustjórum í dag en ég gerði ef ég á að vera hreinskilinn. Mér fannst ég alltaf vera besti þjálfari og knattspyrnustjóri í heimi þegar að ég var leikmaður og ég hugsaði oft af hverju við værum að gera ákveðnar æfingar og af hverju við værum að gera hitt og þetta á æfingasvæðinu.“
„Í dag hef ég beðið fyrrum knattspyrnustjóra mína afsökunar á því að efast um þá og þeirra vinnu. Ég veit núna hversu ótrúlega erfitt þetta er og þetta er allt annar leikur en að spila sjálfur,“ sagði hann að lokum.