Louis van Gaal, fyrrum stjóri Manchester United lét leikmenn liðsins heyra það á dögunum.
Hollendingurinn var látinn taka pokann sinn hjá félaginu sumarið 2016 og var Jose Mourinho ráðinn í hans stað.
Leikmenn liðsins hafa verið talsvert gagnrýndir fyrir spilamennsku sína á þessari leiktíð og hefur Mourinho meðal annars sagt að margir leikmenn liðsins líti of stórt á sig og nenni ekki að sinna vinnu sinni.
Van Gaal virðist vera sammála Portúgalanaum og segir að hann hafi verið í basli með marga leikmenn liðsins þegar að hann var stjóri United.
„Ég bjó til innri vef fyrir leikmenn liðsins þar sem að leikmenn gátu fengið aðgang að öllum gögnum sem í boði voru fyrir leiki,“ sagði Van Gaal.
„Þannig fengu allir leikmenn liðsins tækifæri til þess að undirbúa sig sem allra best, líka fyrir fundi með mér og starfsliðinu.“
„Margir af leikmönnunum nenntu ekki einu sinni að lesa póstana frá mér. Þeir höguðu sér oft eins og viðvaningar og sýndu engan metnað.“
„Ég prófaði þetta hjá Bayern Munich og þar virkaði þetta mjög vel,“ sagði hann að lokum.