Jose Mourinho, stjóri Manchester United ætlar sér að styrkja leikmannahóp liðsins í sumar.
United situr sem stendur í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 65 stig, 16 stigum á eftir toppliði Manchester City.
Þá er United úr leik í Meistaradeildinni í ár eftir svekkjandi tap gegn spænska liðinu Sevilla.
Samkvæmt Mirror vill Mourinho fá þá Fred, Blaise Matuidi og Ivan Perisic á Old Trafford í sumar en hann hefur verið duglegur að gagnrýna núverandi leikmenn liðsins að undanförnu.
United sló Brighton úr leik í 8-liða úrslitum enska FA-bikarsins á dögunum en þrátt fyrir það var stjórinn ósáttur með spilamennsku margra leikmanna liðsins.
Þá hefur United einnig verið orðað við nokkra sterka miðverði en Portúgalinn er sagður vilja fá nýjan varnarmann til félagsins til þess að spila með Eric Bailly.