Swansea tók á móti Tottenham í 8-liða úrslitum FA-bikarsins í dag en leiknum lauk með 3-0 sigri gestanna.
Það voru þeir Christian Eriksen og Erik Lamela sem skoruðu mörk Tottenham í dag en Daninn var magnaður í leiknum og skoraði tvennu.
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham var að vonum sáttur með að vera kominn áfram í undanúrslit keppninnar.
„Þetta var mjög góð frammistaða hjá okkur í dag. Ég er mjög sáttur og ánægður með strákana,“ sagði stjórinn.
„Við áttum sigurinn skilið hérna í dag. Við skorum snemma sem gerði okkur auðveldara fyrir en við stjórnuðum þessum leik frá A til Ö. Ég ætla ekki að eyða tíma í að tala um VAR, ég sé ekki tilganginn í því.“
„Við höfum nú unnið tvo leiki í röð, án þess að stilla upp saman byrjunarliðinu í þeim og ég er mjög ánægður með það. Það sýnir að við erum með góðan hóp og að það eru allir á tánum,“ sagði hann að lokum.