Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður Everton meiddist á hné í leik liðsins gegn Brighton um helgina í ensku úrvalsdeildinni.
Óttast er að hann sé með sködduð liðbönd en ekkert hefur þó verið staðfest í þeim efnum og bíða nú stuðningsmenn Everton og íslenska landsliðsins með öndina í hálsinum.
Gylfi er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu en ef hann er með slitin liðbönd eru miklar líkur á því að hann missi af HM í Rússlandi.
Kolbeinn Kristinsson setti inn færslu á Twitter þar sem hann vildi senda Gylfa í stofnfrumumeðferð til Panama.
Stuðningsmenn Everton gripu færsluna á lofti og túlkuðu hana, með hjálp Google, sem svo að Gylfi væri farinn til Panama í sprautur.
Þeir birtu frétt á stuðningsmanna síðu sinni sem nú hefur verið leiðrétt en eftir á er þetta ansi skondið atvik.