Samkvæmt enskum götublöðum verður Jóhann Berg Guðmundsson kantmaður Burnley eftirsóttur biti í sumar.
Sagt er að Newcastle, Leicester og Southampton hafi öll tekið eftir góðri frammistöðu Jóhanns.
Þau eru öll sögð hafa áhuga á að kaupa Jóhann frá Burnley í sumar en hann er á sínu öðru tímabili á Turf Moor.
Jóhann hefur verið frábær á þessu tímabili og líklega jafn besti leikmaður Burnley.
Hann lagði upp eitt mark í sigri liðsins á West Ham um helgina en ensk götublöð segja verðmiðann á Jóhanni 20 milljónir punda.
Jóhann kom til Burnley frá Charlton eftir EM í Frakklandi og eftir erfitt fyrsta tímabil hefur hann sprungið út.
Sagt er í fréttum að Rafa Benitez hafi lengi fylgst með Jóhanni og þá er sagt að Leicester horfi til Jóhanns ef Riyad Mahrez verði seldur.
Southampton ku lengi hafa fylgst með Jóhanni og eru klárir í baráttu. Sagt er að Burnley muni bjóða Jóhanni nýjan samning á næstunni.