Ólafur Kristjánsson þjálfari FH segir að aðstoðarmaður Roy Hodgson hjá enska landsliðinu árið 2016 hafi ekki haft mikla trú á Jóhanni Berg Guðmundssyni.
Ólafur var að leikgreina fyrir íslenska liðið sem vann England svo á EM. Jóhann lék þá með Charlton en gekk í raðir Burnley í ensku úrvalsdeildinni eftir EM.
Jóhann hefur stimplað sig inn í ensku úrvalsdeildina og verið frábær á þessu tímabili.
„Aðeins um Crystal Palace og Roy Hodgson eða clueless Hodgson. Ástæðan fyrir því að ég er svolítið pirraður út í hann er að þegar ég var að „scouta“ fyrir Evrópumótið 2016 þá var ég oft með enskum njósnara sem var náinn aðstoðarmaður Hodgson,“ sagði Ólafur í Messunni.
„Þá vorum við oft að tala um íslenska leikmenn og meðal annars Jóhann Berg. Hann sagðist kannski myndi ráðleggja stjóra í Englandi að taka þegar liðið væri í baráttu í næstefstu deildinni. Hann gæti svo aldrei meikað það í efstu deild. Þessi hroki varð þeim að falli. Þeir höfðu varla skoðað liðið. Fóru bara í skoðunarferð á Signu sem er reyndar mjög falleg.“