Antonio Conte, stjóri Chelsea sendi Eden Hazard, sóknarmanni liðsins viðvörunarorð á dögunum.
Hazard gagnrýndi stjóra sinn óbeint eftir 0-1 tap liðsins gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.
Sóknarmaðurinn spilaði sem fölsk nía í leiknum en hann benti á, eftir leikinn að hann hefði getað spilað í þrjár klukkustundir gegn City, án þess að snerta boltann.
„Ég lét svipuð ummæli falla þegar að ég spilaði með Juventus. Við unnum Parma, 3-1 og þetta var toppslagur. Eftir leikinn kom landsleikjahlé þar sem að ég fór í viðtal og sagði að ég væri ekki sáttur með mitt hlutverk í liðinu,“ sagði Conte.
„Þegar að ég snéri aftur tók Lippi á móti mér og hraunaði yfir mig, fyrir framan alla leikmennina. Eftir æfinguna hringdi félagið í mig og hraunaði yfir mig, svo var ég sektaður.“
„Ég var svo settur á bekkinn og geymdur þar. Ég kýs að ræða frekar við leikmenn mína, maður á mann ef það er eitthvað,“ sagði hann að lokum.