AC Milan tók á móti Arsenal í dag í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar en leiknum lauk með 2-0 sigri gestanna.
Það voru þeir Henrikh Mkhitaryan og Aaron Ramsey sem skoruðu mörk Arsenal í dag en þau komu bæði í fyrri hálfleik og enska liðið því í frábærum málum fyrir seinni leikinn eftir viku.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal var afar sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld.
„Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur eftir hörmungar viku hjá okkur. Þetta var góður sigur en við erum langt frá því að vera komnir áfram í næstu umferð,“ sagði Wenger.
„Mér fannst við skynsamir í kvöld, við tókum ekki óþarfa áhættur en sóttum þrátt fyrir það vel og vorum ábyrgir í varnarleiknum.“
„Við urðum að svara fyrir slæm töp í dag og við gerðum það vel fannst mér. Ef þú ert boxari og ert sleginn niður þarftu að standa hratt upp aftur og mér fannst við gera það í dag,“ sagði hann að lokum.