Manchester City tók á móti Basel í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 2-1 sigri gestanna.
Gabriel Jesus kom City yfir á 8. mínútu en það voru þeir Mohamed Elyounoussi og Michael Lang sem skoruðu mörk Basel í kvöld.
Fyrri leik liðanna lauk með 4-0 sigri City og enska liðið fer því örugglega áfram í 8-liða úrslitin, samanlegt 5-2.
Pep Guardiola, stjóri City var svekktur með að tapa á heimavelli í kvöld.
„Fyrri hálfleikurinn var mjög góður en í síðari hálfleik gleymdum við að sækja. Þegar að við færum boltann á milli manna gerum við það til þess að sækja á andstæðing okkar en við vorum ekki að gera það í kvöld,“ sagði stjórinn.
„Seinni hálfleikurinn hjá okkur var afar slakur. Það er ekki auðvelt að spila með 4-0 forystu. Við ræddum það fyrir leik og í fyrri hálfleik sýndum við það að við vildum vinna leikinn, við sköpuðum helling og vorum öflugir.“
„Eftir að þeir jafna þá fórum við bara að senda boltann á milli manna og það er ekki fótbolti,“ sagði Guardiola að lokum.