Manchester United náði í stign þrjú þegar liðið heimsótti Crystal Palace heim í ensku úrvalsdeildinni í gær. United byrjaði leikinn illa og var fyrri hálfleikurinn afar illa spilaður af liðinu. Andros Townsend kom heimamönnum yfir á elleftu mínútu en skot hans fór í Victor Lindelof og í netið.
Síðari hálfleikur var svo ekki gamall þegar Patrick Van Aanholt kom Palace í 2-0. Liðið tók aukaspyrnu fljótt á miðum vellinum og hollenski bakvörðurinn var sendur einn í gegn á meðan Chris Smalling var sofandi. Van Aanholt skoraði svo á nærstöngina á David De Gea.
Á 55 mínútu lagaði Smalling stöðuna fyrir United þegar hann lúrði á teignum og kom boltanum í netið af stuttu færi. Það var svo á 76 mínútu sem Romelu Lukaku jafnaði leikinn en hann fékk boltann á teignum eftir gott skot Alexis Sanchez. Það var svo í uppbótartíma sem Nemanja Matic tryggði United sigurinn með geggjuðu skoti fyrir utan teig og tryggði United stigin þrjú.
Jamie Carragher sérfræðingur Sky Sports var ekki hrifinn af því hvernig Paul Pogba dýrasti leikmaður United og Alexis Sanchez launahæsti leikmaður liðsins voru að spila í fyrri hálfleik.
,,Það er eins og Pogba og Sanchez séu tveir krakkar á skólalóðinni,“ sagði Carragher.
,,Það er eins og þeir hugsi ´Við erum bestu leikmenn liðsins og gerum bara það sem við viljum´.“