Arsene Wenger, stjóri Arsenal er langt frá því að vera vinsælasti maðurinn á Englandi þessa dagana.
Liðið tapaði illa fyrir Manchester City um helgina í úrslitum enska Deildarbikarsins, 0-3 og eru margir stuðningsmenn liðsins komnir með nóg af Wenger.
Þá virðast fyrrum leikmenn liðsins vera búnir að missa þolinmæðina en þeir Thierry Henry og Paul Merson gagnrýndu hann báðir harðlega eftir leikinn gegn City.
„Stuðningsmennirnir eru búnir að fá nóg. Þegar að ég hitti þá í dag þá spyrja þeir mig reglulega af hverju Arsenal er ekki á toppnum í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Henry.
„Vandamál Arsenal er stöðugleiki. Þeir vinna kannski Chelsea, spila vel á heimavelli en fara svo á útivöll og tapa. Það vantar allan stöðugleika í liðið.“
„Það tapa allir leikjum en þetta snýst um það hvernig þú tapar leknum. Mörkin sem Arsenal fékk á sig gegn City voru mörk sem var auðveldlega hægt að koma í veg fyrir,“ sagði Henry.
„Annað liðið leit út eins og þeir væru að spila úrslitaleik, hitt liðið spilaði eins og þeir væru að spila heiðursleik fyrir einhvern,“ sagði Merson og átti þar við Arsenal.
„Það er ekki bara hægt að kenna stjóranum um þetta tap, leikmennirnir verða að axla einhverja ábyrgð og þeir mættu ekki til leiks í dag,“ sagði Merson að lokum.