Óskar Hrafn Þorvaldsson sérfræðingur Stöð2 Sport og þjálfari Gróttu drullaði yfir Jose Mourinho stjóra Manchester United í gær.
United náði í 0-0 jafntefli á útivelli gegn Sevilla í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Margir telja úrslitin góð en Óskar var að drepast úr leiðindum yfir leiknum.
„Maður trúir því ekki að maður sér á horfa á knattspyrnustjóra hjá einu stærsta félagsliði í heimi í einni stærstu keppni í heimi. Það lítur út fyrir að hann sé að bíða eftir því að stærðfræðikeppni sé að byrja í MR,“ sagði Óskar Hrafn á Stöð2Sport í gær.
„Hvernig hann hagaði sér á þessum blaðamannafundi, hvernig hann var í þessum leik, hvernig hann stillti upp þessum leik, hvernig hann er búinn að vera undanfarnar vikur,“ sagði Óskar Hrafn.
„Hann er leiðinlegur utan vallar og leiðinlegur í tilsvörum. Hann er leiðinlegur þegar hann leggur leikinn upp. Hann er bara leiðinlegur. Og hann er bara að eyðileggja United.“
„Þetta er leiðinlegasti leikur sem ég hef horft á lengi. Ég leið vítiskvalir yfir samantektinni ef það er hægt að kalla þetta samantekt. Það væri skemmtilegra að horfa á málningu þorna en að horfa á United spila.“
„Það var hræðilegt að horfa á þetta. Þetta er lið sem kostar mörg hundruð milljónir punda. Með knattspyrnustjóra sem er á ofurlaunum fyrir að stýra þessu. Hann er lélegur og leiðinlegur, liðið er lélegt og leiðinlegt og góðir leikmenn eru að spila illa. Hættu þessu! Farðu bara og finndu þér eitthvað annað að gera, Jose Mourinho.“