Það var hart barist í fjörugum leik þegar Tottenham heimsótti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni
Mohamed Salah skoraði eina mark fyrri hálfleik á þriðju mínútu leiksins en boltinn hrökk þá inn fyrir vörn Tottenham.
Salah var afar rólegur í færi sínu og skoraði sitt tuttugasta mark í ensku úrvalsdeildinni. Magnað fyrsta tímabil fyrir sóknarmanninn knáa frá Egyptalandi.
Tottenham sótti talsvert í síðari hálfleik og Liverpool nýtti sér skyndisóknir.
Victor Wanyama jafnaði svo leikinn þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Miðjumaðurinn frá Kenýa hafði komið inn sem varamaður og fékk boltann fyrir utan teig. Hann hamraði honum í fyrstu snertingu og boltinn fór í netið. Frábært mark
Það var svo á 85 mínútu sem Tottenham fékk umdeilda vítaspyrnu, Harry Kane fór á punktinn en Loris Karius varði frá framherjanum knáa. Karius átti öflugan dag í marki Liverpool.
Magnaður, Salah hélt svo að hann hefði tryggt Liverpool sigur með rosalegu einstaklings framtaki undir lok leiksins. Salah lék sér að varnarmönnum Spurs og skoraði.
Virgil van Dijk fékk svo dæmda á sig vítaspyrnu skömmu síðar og aftur fór Kane á punktinn, hann skoraði þá örugglega og tryggði Spurs stig. Ótrúlegur leikur.
Liverpool er með 51 stig í þriðja sæti deildarinnar en Tottenham er með tveimur stigum minna í fimmta sæti.