Jurgen Klopp, stjóri Liverpool útskýrði það á dögunum af hverju hann hefði ekki verslað fleiri leikmenn til félagsins í janúar.
Félagið seldi Philippe Coutinho til Barcelona og þá fór Daniel Sturridge á láni til WBA.
Klopp keypti Virgil van Dijk frá Southampton en það voru einu kaup félagsins og eru stuðningsmenn Liverpool ósáttir með að félagið hafi ekki keypt neinn til að fylla skarð Philippe Coutinho.
„Það er svo auðvelt fyrir utanaðkomandi aðila að gagnrýna okkur og segja hluti sem erfitt er að skilja. Það meiðist leikmaður hjá okkur og er frá í viku, þá vilja sumir að við kaupum nýja leikmenn,“ sagði Klopp.
„Auðvitað hefðum við getað gert eitthvað meira en ég vil gera þetta rétt og kaupa réttu leikmennina. Ég fékk þá ekki, ég hefði getað fengið réttu leikmennina fyrir algjörlega sturlaða upphæð og það er í raun glórulaust að hugsa út í það.“
„Leikmenn eru dýrari í janúar. Í sumar verða hlutirnir öðruvísi og ódýrari. Ég veit ekki einu sinni hvort það hefði hjálpað okkur að kaupa einhverja leikmenn á miðju tímabili,“ sagði Klopp að lokum.