Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool hefur kallað eftir meiri stöðugleika hjá leikmönnum liðsins.
Liverpool situr sem stendur í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 50 stig, jafn mörg stig og Chelsea sem er í fjórða sætinu.
Liðið vann góðan 3-0 sigur á Huddersfield á dögunum en hafði áður tapað tveimur leikjum í röð gegn Swansea og WBA, slökustu liðum ensku úrvalsdeildarinnar.
„Við erum spenntir að sjá hvað við getum gert á síðustu mánuðum tímabilsins. Þetta verður stórt próf fyrir okkur en ég tel að við séum tilbúnir,“ sagði fyrirliðinn.
„Við þurfum að sýna meiri stöðugleika og spila eins og við gerðum gegn Huddersfield. Ég er ekki að hugsa um stigamuninn á okkur og Tottenham, hann skiptir engu máli, ég vil bara vinna þennan leik.“
„Við þurfum líka að leggja meiri áherslu á það að halda markinu hreinu, við gerðum það í vikunni og erum með sjálfstraust núna. Vonandi náum við að nýta okkur þetta,“ sagði hann að lokum.