Tottenham tók á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær en leiknum lauk með 2-0 sigri heimamanna.
Það var Christian Eriksen sem kom Tottenham yfir í upphafi leiks og Phil Jones skoraði svo sjálfsmark um miðjan fyrri hálfleikinn og niðurstaðan því 2-0 sigur Tottenham.
Jose Mourinho, stjóri United ákvað að taka Paul Pogba, fyrirliða liðsins af velli á 63. mínútu en hann átti ekki góðan leik í gær og telur Frank Lampard sig vita ástæðuna fyrir því.
„Pogba er mjög sóknarþenkjandi miðjumaður. Hann er mikill íþróttamaður, sterkur á boltanum og góður að senda menn í gegn,“ sagði Lampard.
„Þegar hann spilar við hlið Matic, aftarlega á vellinum þá verður hann að sinna því starfi. Hann þarf að verjast með honum og hjálpa honum.“
„Hann var ekki góður varnarlega í gær og var alltof oft útúr stöðu. Þess vegna tók Mourinho hann af velli held ég, hann var ekki nógu agaður í gær og stjórinn fékk nóg,“ sagði hann að lokum.