Enska úrvalsdeildin heldur úti draumaliðsleik á vef sínum sem margt knattspyrnuáhugafólk notar.
Fyrir komandi umferð í ensku úrvalsdeildinni er notendum bent á að sniðugt gæti verið að kaupa Jóhann Berg Guðmundsson kantmann Burnley.
Síðustu vikur hefur Jóhann verið að skapa miklar hættur upp við mark andstæðinga sinna.
,,Jóhann hefur skapað 14 marktækifæri í síðustu fjórum umferðum, meira en nokkur annar leikmaður í deildinni,“ segir á vef ensku úrvalsdeildarinnar.
,,Þetta hefur Jóhann gert þrátt fyrir að hafa spilað bæði gegn Liverpool og Manchester United í þessum leikjum, af þessum 14 færum hafa þrjú verið dauðafæri (Færi sem leikmaður ætti að skora úr).“
,,Jóhann hefur bætt leik sinn talsvert undanfarið, fyrir 20 umferð þá hafði hann skapað færi á 62 mínútna fresti en nú skapar hann færi á 25 mínútna fresti fyrir samherja sína. Jóhann fær mikla ábyrgð í föstum leikatriðum og hefur tekið allar 14 hornspyrnur Burnley eftir að Robbie Brady meiddist.“
Vefurinn ráðleggur þeim sem spila draumaliðsleikinn að klókt væri að kaupa Jóhann fyrir næstu leiki.