KSÍ hefur frestað samningaviðræðum við Heimi Hallgrímsson, þjálfara íslenska karlalandsliðsins en það er mbl.is sem greinir frá þessu í dag.
Núverandi samningur hans rennur út eftir HM en Ísland er með á mótinu í fyrsta sinn í sögunni.
Heimir var ráðinn sem aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins árið 2011 en þá var Lars Lagerback með liðið.
Hann og Lars tóku svo saman við liðinu árið 2013 og komu liðinu alla leið á EM í Frakklandi en Lars hætti eftir mótið.
Heimir hefur stýrt landsliðinu frá árinu 2016 og náð mögnuðum árangri en hann kom liðinu á lokakeppni HM í fyrsta sinn eins og áður sagði.