Jose Mourinho, stjóri Manchester United hefur framlengt samning sinn við enska félagið en þetta var tilkynnt núna rétt í þessu.
Samningurinn gildir til ársins 2020 og er með möguleika á árs framleningu, í það minnsta.
Hann verður því hjá félaginu næstu þrjú árin en hann tók við liðinu af Louis van Gaal sumarið 2016.
„Ég vil þakka eigendunum og Woodward fyrir traustið sem þeir hafa sýnt mér. Ég er þakklátur fyrir þetta tækifæri sem mér hefur verið gefið að stýra þessu frábæra félagi áfram,“ sagði Mourinho.
„Við höfum sett markið hátt, við unnum þrjá titla á síðustu leiktíð en þetta eru þau viðmið sem við viljum vinna eftir. Við viljum vinna titla hjá þessu félagi og það eru bjartir tímar framundan hjá þessu magnaða félagi.“
„Ég verð að þakka starfsfólki félagsins og leikmönnum mínum. Þetta hefði ekki tekist án þeirra. Ég elska leikmenn mína og ég er mjög spenntur fyrir því að halda áfram að vinna með þeim, næstu þrjú árin.“
„Ég verð að þakka stuðningsmönnum félagsins fyrir að taka mér með opnum örmum. Mér hefur liðið vel hérna frá fyrsta degi og það er mikill heiður fyrir mig að fá að stýra þessu félagi,“ sagði hann að lokum.