Brighton tók á móti Chelsea í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag en leiknum lauk með 4-0 sigri gestanna.
Eden Hazard kom Chelsea yfir strax á 3. mínútu áður en Willian tvöfaldaði forystu Chelsea á 6. mínútu eftir magnað samspil við þá Hazard og Michy Batshuayi og staðan því 2-0 í hálfleik.
Hazard skoraði svo sitt annað mark í leiknum á 77. mínútu áður en Victor Moses innsiglaði sigur gestanna á 88. mínútu og lokatölur því 4-0 fyrir Chelsea.
Chelsea fer upp fyrir Liverpool í þriðja sæti deildarinnar með 50 stig, líkt og Manchester United en Brighton er áfram í því sextánda með 23 stig.