Alexis Sanchez, sóknarmaður Arsenal er sterklega orðaður við Manhcester United þessa dagana og er talið að félagaskiptin muni ganga í gegn í dag eða um helgina.
Henrikh Mkhitaryan, sóknarmaður United mun fara til Arsenal í skiptum fyrir Sanchez en félagaskiptin hafa legið í loftinu.
Granit Xhaka, miðjumaður liðsins telur að Arsenal muni sakna Sanchez mikið en hann hefur verið lykilmaður á Emirates, undanfarin ár.
„Alex er mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Hann er mjög hæfileikaríkur og hann sýnir það í hverri einustu viku og ég yrði mjög ánægður ef hann verður hérna áfram,“ sagði Xhaka.
„Hann er leikmaður sem vill alltaf vinna, sama hvort við séum að spila keppnisleik eða bara á æfingu. Það skiptir ekki máli hver mótherjinn er, hann vill bara vinna og það lýsir honum vel, þannig persóna er hann.“
„Ef hann fer þá munum við sakna hans mikið, það er augljóst,“ sagði hann að lokum.