Stjórn KSÍ hefur tekið þá ákvörðun að kvennalandsliðið muni fá jafn háar árangurstengdar greiðslur fyrir þátttöku í undankeppnum fyrir stórmót.
Hingað til hefur karlalandsliðið fengið talsvert hærri upphæð en nú hefur KSÍ stigið skref og jafnað þær.
Um er að ræða talsvert háar upphæðir ef vel gengur.
,,Ég vil tilkynna það hér og nú að stjórn KSÍ hefur tekið þá ákvörðun að jafna árangurstengdar greiðslur í undankeppnum stórmóta. Við tókum þessa ákvörðun einhuga í stjórninni,“ sagði Guðni Bergsson formaður KSÍ í dag.
,,Við viljum vera framsækin, við ákváðum að stíga þetta skref. Noregur gerði þetta og við töldum þetta tímabært, þetta er hvatning fyrir íslenskan fótbolta og kvennaknattspyrnu.“
,,Dagpeningar hafa verið jafnir um árabil en við vildum gera þetta líka með árangurstengdar greiðslu. Þetta er talsverð hækkun fyrir kvennalandsliðið.“