Ernesto Valverde, stjóri Barcelona var mættur á blaðamannafund í dag þar sem að hann ræddi leik Barcelona og Celta Vigo í spænska Konungsbikarnum.
Þar var hann spurður út í Philippe Coutinho, sóknarmann Liverpool en hann hefur verið sterklega orðaður við félagið að undanförnu.
Valverde varð pirraður á umræðuefninu og hafði ekki mikinn áhuga á því að ræða hugsanleg kaup félagsins á Coutinho.
„Stundum mæti ég hingað á blaðamannafundi og frétti af hlutum sem eru stundum sannir og stundum ósannir,“ sagði stjórinn.
„Coutinho spilar fyrir annað félag og er frábær leikmaður fyrir það félag. Hvort hann spili fyrir Barcelona í framtíðinni get ég ekki svarað.“
„Ég er ánægður með þá leikmenn sem ég er með í mínu liði og ef það bætist einhver við þá reikna ég fastlega með því að það sé mjög góður leikmaður líka.“
„Ég hef ekkert að segja um Coutinho. Ég ber virðingu fyrir því að hann sé leikmaður hjá öðru félagi og mun ekki tjá mig meira um þetta mál,“ sagði hann að lokum.