„Ég held það geti allir verið sammála um að Rúrik er mjög myndarlegur maður. Hann og Birkir Bjarnason eru kannski á toppnum hvað það varðar, ég held að flestar konur geti verið sammála um það,“ sagði Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour, í Brennslunni á FM957 í morgun.
Fyrir utan jafnteflið gegn Argentínu og allt í kringum það hefur verið rætt um fátt annað en velgengni Rúriks Gíslasonar á Instagram. Landsliðsmaðurinn nýtur gríðarlegra vinsælda þar og fjölgar aðdáendum hans þar með hverri mínútunni sem líður. Áður en að leiknum gegn Argentínu kom voru fylgjendur hans um 30 þúsund en nú eru þeir orðnir um 400 þúsund.
Álfrún sagði að Rúrik og Birkir væru að vinna með sama útlitið. „Þetta síða hár, þeir eru vel tanaðir og báðir hugsa greinilega mjög vel um sig. Ég sá að Birkir hellti vatni yfir hárið á sér fyrir leik, það er eitthvað meðvitað, til að halda því frá andlitinu en líka til að lúkka í leiðinni. Þeir eru báðir að hugsa vel um sig og þeir eru yfirleitt vel klæddir; Rúrik er þekktur fyrir að spá mikið í hverju hann er, smekklegur maður.“
Hjörvar Hafliðason benti svo á að það væru aðallega konur frá Suður-Ameríku sem hefðu bæst í fylgjendahópinn. Þegar Álfrún var spurð að því hvort það væri eitthvað við útlits Rúriks, sem höfðaði til kvenna í Suður-Ameríku, sagði hún:
„Var það ekki bara af því að svo margar konur í Suður-Ameríku voru að horfa á þennan Argentínuleik? Svo getur verið að konurnar í Nígeríu verði æstar á föstudag. Er það ekki líka bara málið? Ég held hann höfði bara til kvenna.“
Álfrún hélt svo áfram og sagði að allir geti verið sammála um að Rúrik sé myndarlegur, bæði karlar og konur. Þegar hún var spurð að því hvort hún teldi að Rúrik væri meðvitaður um að síða hárið myndi slá í gegn á HM sagði hún: „Að vera með sítt hár er brjálað vesen. Þú gerir það ekki nema þú sért tilbúinn að fórna þér í hárþvottinn og blásturinn. Þetta er ekki tilviljun.“
Álfrún sagði að Rúrik væri núna orðinn áhrifavaldur og hann gæti í raun klætt sig eins og honum lystir. Hann setji í raun fordæmi með útliti sínu, hvernig sem það er.