fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Neytendur

Segir fjölmiðla ástæðu þess að íslensk verslun nýtur ekki trausts

Fjölmiðlar vændir um að bera saman verð á ósanngjarnan hátt – „Menn nýta sér blygðunarlaust fákeppni þar sem þeir koma því við,“ segir framkvæmdastjóri IKEA – Jólasendingar að utan 55% fleiri en í fyrra

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 14. desember 2016 14:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er fjölmiðlum að kenna að íslensk verslun nýtur ekki trausts. Þetta mátti skilja af orðum Margrétar Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra Pfaff, í pallborðsumræðum á morgunverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um samkeppnishæfni íslenskra verslana. Fundurinn fór fram á Grand Hotel í morgun.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, flutti framsögu og sagði að útilokað væri fyrir íslenska verslun að keppa við verð í útlöndum. Ástæðurnar væru meðal annars vaxtaokur, stærð markaða, flutningur og íslenska krónan. „Það má því færa fyrir því réttmæt rök að verð á Íslandi eigi með réttu að vera þó nokkuð hærra en í samanburðarlöndum.“

Sjá einnig: Okrað á Íslendingum

Neytandinn lúbarinn

Hann sagði þó að verslunin ætti að standa sig betur, hún væri alls ekki að gera allt sem hún gæti. Allt of mikið af vöru og þjónustu væri seld hér á allt of háu verði. „Menn nýta sér blygðunarlaust fákeppni þar sem þeir koma því við og neytandinn [er] svo lúbarinn að hann er eiginlega hættur að taka eftir því.“

„Hraðar verðhækkanir og síðan hægar verðlækkanir eru ekki rétta aðferðin.“

Hann nefndi að styrking krónunnar væri víða að skila sér seint til neytenda. Það væri til að mynda hneyksli að fatnaður hefði ekki lækkað í verði eftir að vörugjöld voru afnumin. Þá gagnrýndi hann sérstaklega að verð á bílum hefði ekkert lækkað þrátt fyrir styrkingu krónunnar. Verslunin væri að mörgu leyti rúin trausti en til þess að ávinna sér traust á nýjan leik yrði margt að breytast. „Hraðar verðhækkanir og síðan hægar verðlækkanir eru ekki rétta aðferðin. Endalaus tilboð allt árið um kring, með 30, 40 eða 50 prósent afslætti og síðan allt of há verð þar á milli er ekki rétta aðferðin.“

Þórarinn Ævarsson er framkvæmdastjóri IKEA. Hann sagði verslunina í landinu verða að gera miklu betur.
Gagnrýndi verslunina Þórarinn Ævarsson er framkvæmdastjóri IKEA. Hann sagði verslunina í landinu verða að gera miklu betur.

Afleiðingin af þessu væri sú að fólk verslaði við erlendar verslanir í auknum mæli. Þess má geta að Fréttablaðið greindi frá því í morgun að jólasendingar að utan séu 55% fleiri en í fyrra.

Neytendur samherjar, ekki andstæðingar

Þórarinn sagði að verslunin ætti að líta á stéttarfélög og samtök neytenda sem samherja, en ekki andstæðinga. Nauðsynlegt væri að verslunin tæki sig á a og sýndi neytandanum virðingu. Það væri hagur af því, fyrir verslunina, að standa með neytendum. Benti hann í því samhengi á að IKEA hefði ekki frá árinu 2012 hækkað hjá sér verð. Að teknu tilliti til vísitölu hefði IKEA lækkað hjá sér verð um 35%, þrátt fyrir launaskrið. Nú væri fyrirtækið að uppskera ríkulega, enda slær núverandi ár fyrri met hjá IKEA.

Þórarinn nefndi líka, eins og Margrét, að umfjöllun fjölmiðla væri ekki alltaf sanngjörn.

Atlögur vanstilltra fávita

Hann skaut föstum skotum að Bjarna Ákasyni, framkvæmdastjóra Epli, í framsögu sinni og sýndi frétt þar sem Bjarni kallaði hann „froðusnakk“. Þórarinn sagði að lykillinn að velgengni IKEA væri meðal annars „Vilji til að leiða hjá sér árásir og atlögur vanstilltra fávita sem eru svartir af öfund og þola ekki að það sé bent á að keisarinn sé ekki í neinum fötum.“

Margrét er framkvæmdastjóri Pfaff.
Í pallborði Margrét er framkvæmdastjóri Pfaff.

Mynd: Samfylkingin.is

Fjölmiðlar ekki að standa sig

Í pallborði voru ásamt Þórarni og Margréti, Ólafur Arnarson formaður Neytendasamtakanna og Jón Björnsson, forstjóri Festi.

Margrét í Pfaff gagnrýndi í máli sínu að fjölmiðlar hefðu ekki áhuga á að segja frá því þegar verðmunur á vörum væri lítill. Jákvæðar fréttir væru aldrei sagðar, heldur versta mögulega mynd af versluninni dregin upp. „Fjölmiðlar eru ekki að standa sig. Þeir sýna frekar þegar illa gengur en ekki þegar vel gengur,“ sagði hún.

Þess má geta að í verðsamanburði DV á dögunum voru vörurnar valdar af handahófi. Að jafnaði, þegar 20 verslanir voru skoðaðar, munaði 60-70% í verði á Íslandi og í Noregi, Danmörku og Bretlandi.

Bað um að fá að vera með í verðsamanburði

Margrét nefndi í gagnrýni sinni á fjölmiðla að verslunin gæti ekki staðið erlendri verslun jafnfætis í verði. Hún nefndi dæmi að Sennheiser heyrnartól kostuðu 49 þúsund krónur í Pfaff en um 44 þúsund krónur í samanburðarlöndum. Hún gæti lítið að 10% verðmun gert þar sem hún þyrfti að greiða toll og flutning. Ef verðmunurinn væri miklu meiri leitaði hún skýringa hjá sínum birgja. Á fundinum hvatti hún DV til að hafa Pfaff með í verðkönnun næst.

DV er ekkert að vanbúnaði. Blaðamaður kannaði, af þessu tilefni, verð á tveimur Sennheiser heyrnartólum í Pfaff á verðbilinu sem Margrét nefndi. Hér er því um að ræða vöru sem hún hefur líklega sjálf haft í huga þegar hún nefndi dæmið á fundinum.


Momentum-Wireless-ON-EAR-SV.
Heyrnartól Momentum-Wireless-ON-EAR-SV.

Sennheiser Momentum On-Ear þráðlaus heyrnartól kosta í Pfaff 47.900 krónur.

Í Computer Salg Mega store (sem hefur verslun í Borup í Danmörku) kosta heyrnartólin 35.248 krónur. Verðmunurinn er 26%.

Í Siba í Noregi kosta sömu heyrnartól 2.490 norskar, eða 30.495 á gengi dagsins. Verðmunurinn er 31%.

Í Siba í Svíþjóð er verðið 30.495 íslenskar. Það gerir 36% verðmun.


RS 185.
Sennheiser RS 185.

Sennheiser RS 185 er „ný frábær opin stafræn þráðlaus heyrnartól fyrir vandláta hlustendur“. Verðið í Pfaff er 49.900 krónur.

Í Computer Salg Mega store í Danmörku er verðið 36.275 krónur íslenskar. 27% verðmunur.

Í MediaMarkt í Svíþjóð 39.067 íslenskar. Verðmunurinn er tæp 22%.

Verðið í Noregi er víðast 2.990 norskar, eða 39.728 krónur. Verðmunurinn 20%. Þar er þó yfirleitt um að ræða netverslanir.


Nýjustu plötusnúða heyrnartólin frá Sennheiser
HD8 DJ Nýjustu plötusnúða heyrnartólin frá Sennheiser

Sennheiser HD8 DJ heyrnartól kosta í Pfaff 49.995 krónur. Í áðurnefndri Computer Salg Mega Store er verðið 37.045 krónur íslenskar. Það gerir 26% verðmun.

Í Backstage í Noregi kosta tólin 34.878. Það gerir 30% verðmun.

Í Svíðþjóð eru heyrnartólin í fljótu bragði bara til í netverslunum. Í emusic kosta þau 28.780 krónur. Verðið í Pfaff er 42% hærra.

Niðurstaða

Á þessu sést að verð á umræddum Sennheiser heyrnartólum er yfirleitt á bilinu 20-36 prósent hærra í Pfaff en í verslunum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
09.02.2020

Hvað er málið með örorkubætur?

Hvað er málið með örorkubætur?
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
EyjanNeytendur
23.07.2019

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
06.05.2019

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“