Ísland keppti á fyrra undanúrslitakvöldinu síðastliðið þriðjudagskvöld og komst ekki áfram. En finnska framlagið var eitt af þeim lögum sem komust áfram þá.
Finnar hafa prófað alla söng-, lag- og fatastíla í gegnum árin til að reyna að vinna í Eurovision, en þeir eru að taka þátt í 52. skipti í ár. Þeir hafa aðeins einu sinni landað sigri, eins og allir tóku eftir árið 2006 þegar skrímslin í Lordi stigu á svið og fluttu lagið Hard Rock Hallelujah.
Finnar reyna aftur við skrímsli í ár, ekki þó í búningum eða útliti, heldur í titli framlags síns. Það er Saara Aalto sem flytur framlag Finna, Monsters, og þó að Finnum sé ekki spáð sigri þá eru þeir í topp 15 samkvæmt veðbönkum.
Aalto syngur á ensku í keppninni, en í myndbandinu hér fyrir neðan gerir hún gott betur og syngur lagið á 34 tungumálum, eða tungu flestra landa sem taka þátt í Eurovision í ár, þar á meðal íslensku. 43 lög tóku þátt í ár, 37 þeirra tóku þáttí undankeppnum 8. og 10. maí og voru 20 lög valin áfram, sem keppa til úrslita í kvöld ásamt stóru þjóðunum fimm sem alltaf eiga öruggt sæti í Eurovision: Bretland, Þýskaland, Spánn, Ítalía og Frakkland, auk Portúgala sem sigruðu í fyrra.
Það eru einhverjir sem myndu halda að þetta sé allt klippt til og Aalto geti alls ekki sungið þetta svona í einni beit. Hún steig hins vegar á svið í Eurovision þorpinu og flutti lagið á 34 tungumálum, jafn auðveldlega og við hin drekkum vatn.
Lestu einnig: Hvaða lag heldur þú að vinni í ár?
Lestu einnig: Kærastan fylgdi Ara til Lissabon