fbpx
Mánudagur 23.desember 2024

Beint í æð

Bryndís Schram fjallar um leikritið Kvennaráð,

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 26. febrúar 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Bryndís Schram.

Heimsókn í Hannesarholt er sögustund. Ilmur liðinna tíma berst okkur að vitum. Brakið í gólfunum er bæði skáldlegt og traustvekjandi, gamlir lúnir stólar bjóða gestum til sætis. Útskorin borð, handofin teppi og gamlar myndir á veggjum gera húsið bæði heimilislegt og aðlaðandi. Þarna er fortíðin samankomin undir einu þaki og vekur upp minningar um eitthvað, sem aldrei kemur til baka – er horfið í aldanna skaut. En fortíðin verður ekki umflúin. Og sá sem ekki þekkir eigin sögu, á enga framtíð heldur.

Þetta er sú hugmynd, sem starf Hannesarholts er byggt á: „Að þekkja sína eigin sögu“. Þess vegna skiptir starfsemin þar miklu máli og á erindi bæði við unga og aldna. Í allan vetur og fram á vor er boðið upp á fjölbreytta dagskrá – jafnvel þrisvar í viku – og þar kennir ýmissa grasa, allt frá tónlist, leiklist og myndlist til heimspeki, fjöldasöngs og frásagna af eigin lífi. Eitthvað fyrir alla .

Ísland í dag

Síðastliðið fimmtudagskvöld fór til dæmis fram gjörningur í Hannesarholti – eða öllu heldur leiklestur – á nýju verki eftir Sellu Pálsdóttur. Mér finnst svona eftir á, að þetta hafi verið eins og að fá sprautu beint í æð, eða eins konar skilaboð frá höfundi inn í sögubókina – Ísland í dag. Peningar eru vissulega afl þeirra hluta, sem gera skal, en þeir eru engan veginn ávísun á hamingju. Móðir og dóttir eru eins og dagur og nótt. Móðirinn er fulltrúi hverfandi stéttar hinnar undirgefnu, hlýðnu og auðmjúku eiginkonu. Hún hafði aldrei átt þess kost að láta drauma sína rætast, heldur helgað líf sitt eiginmanninum, sem skaffaði vel og gaf henni fallegt heimili í hjarta borgarinnar. Nú er hann horfinn yfir móðuna miklu og komið að tímamótum í hennar eigin lífi.

Dóttirin, hins vegar er athafnakona, sjálfstæð, hugmyndarík og forkur til verka. Nýfrjálshyggjukona – heitir það það ekki? Stjórnar fyrirtæki, stöðugt á ferðalögum og vinsælt slúðurefni síðdegisblaðanna. Hún fer sínu fram, forsmáir eiginmanninn, sem er bæði slóttugur, kærulaus – og með eindæmum óheppinn í fjármálum. Treystir á móðurarf konu sinnar, sem í vændum er – eða hvað? Leikrit Sellu er eins konar uppgjör á milli þessara tveggja kvenna – fulltrúa gamalla og nýrra tíma. Það kemur á daginn, að móðirin hefur ekki síður fjármálavit en dóttirin. Nú sýnir hún á sér nýjar og óvæntar hliðar, er bæði forsjál og vitur. Móðir og dóttir sættast, og saman ganga þær í átt til framtíðar. Þriðja persónan kemur við sögu, en það er „skúringakonan“ – eins og fordómafull dóttirin kallar hana – vietnömsk stúlka, sem er móðurinni innan handan við heimilisstörfin og annað smálegt. Þær eru þegar orðnar bestu vinkonur, eins konar sálufélagar, sem treysta hvor á aðra og eru reiðubúnar að létta hvor annarri lífið, þegar á reynir.

Kaldhæðið skop

Leiklestur er ekki það sama og leikur á alvörusviði. Þess vegna er erfitt að ræða frammistöðu leikaranna, sem lásu upp. Tvær þeirra, þær Þórunn Magnea og Guðrún, eru margreyndar leikkonur og hafa bæði leikið á sviði og í kvikmyndum um árabil. Líf beggja hefur tengst leikhúsinu sterkum böndum, og þær eru félagar í hópi Leikhúslistakvenna 50+. Þær koma vel fyrir og ná að túlka samband móður og dóttur á sannfærandi hátt.

Nýliði kemur fram í hlutverki stúlkunnar frá Vietnam. Liey Thúy Ngo talar íslensku lýtalaust, en með vietnömskum áherslum. Hún kemst vel frá sínu hlutverki, þó svo að hún sé ekki leiklærð eins og hinar. Það má líka bæta því hér við, að samtölin eru mjög eðlileg og fara vel í munni, gædd kaldhæðnu skopi. Sagan sjálf heldur fullkominni athygli og á erindi. Mér
finnst samt, að leikkonurnar hefðu mátt gefa meira af sjálfum sér, fylgja textanum fastar eftir, lita hann ögn meira.

Sjónarhorn að utan

En þá er komið að spurningunni, hver er þessi Sella Pálsdóttir, sem dregur upp þessa hryggilegu mynd af samtímanum? Hún er fædd og uppalin í stórum systkinahópi í eykjavík, en fluttist ung til Bandaríkjanna. Eftir að hafa rekið veitingastað í New York í á annan áratug, framleitt söngleiki í New York, Boston, Washington og L.A., verið meðlimur í leikskáldahópi árum saman þar ytra, samið kvikmyndahandrit og gert heimildamyndir, fluttist hún aftur til Íslands af tryggð við stóra fjölskyldu og gamla vini. En hún hefur svo sem ekki setið auðum höndum. Hún skrifar jöfnum höndum bæði á íslensku og ensku.

Nýjasta bók hennar „Girndarráð“ kemur út á þessu ári í enskri þýðingu hennar sjálfrar. Það hefði verið gaman að fá að sjá alvöruuppfærslu þessa verks hennar Sellu Pálsdóttur. Ég tala nú ekki um, ef Sveinn Einarsson – margreyndur snillingur leikhússins við að glæða höfundarverk nýju lífi – hefði haldið áfram með það upp á stærra svið.

Efnið er, eins og ég sagði í upphafi, svona svipað og að fá sprautu beint í æð – lýsingu á lífi nútíma Íslendinga, skoðað frá sjónarhorni þess sem kemur að utan. Hvers konar líf er það? Harðskeytt – eftirsókn eftir efnislegum gæðum – ef til vill í þeim tilgangi að bæta sér upp fátækt og umkomuleysi fortíðar. En höfum við gleymt því í öllum asanum, að peningar eru ekki tilgangur í sjálfu sér, heldur tæki til að hjálpa okkur til að lifa eftirsóknarverðu lífi. Það er auðvelt að villast af leið í leitinni að hamingjunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Furðulegt mál týnda þingmannsins sem fannst loks á heimili fyrir heilabilaða – Hvers vegna vissi enginn neitt?

Furðulegt mál týnda þingmannsins sem fannst loks á heimili fyrir heilabilaða – Hvers vegna vissi enginn neitt?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Glódís Perla og Orri Steinn knattspyrnufólk ársins

Glódís Perla og Orri Steinn knattspyrnufólk ársins
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Víkingur kaupir Stíg frá Ítalíu

Víkingur kaupir Stíg frá Ítalíu
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

FH-ingar að missa annan lykilmann

FH-ingar að missa annan lykilmann
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“