Hin danska Lone Theils hefur slegið í gegn fyrir bækur sínar um blaðakonuna Nóru Sand
Höfundur: Þórdís Bachmann.
–
Stúlkurnar á Englandsferjunni eftir danska rithöfundinn Lone Theils er nýkomin út í íslenskri þýðingu Þórdísar Bachmann. Þetta er fyrsta bókin í fjögurra bóka röð um blaðakonuna Nóru Sand. Bókin sló strax í gegn og hefur Lone Theils átt mikilli velgengni að fagna eftir útkomu hennar fyrir tveimur árum. Þýðandi bókarinnar hitti Lone í Kaupmannahöfn og átti við hana stutt samtal, í tilefni af því að hún haslar sér nú völl á íslenska glæpasagnamarkaðnum.
–
Lone Theils er með uppteknari konum Danmerkur þessa dagana. Þrátt fyrir þessar annir tekur hún vel í að hitta mig og fara yfir undanfarin tvö ár, en þá venti hún sínu kvæði í kross og gerðist rithöfundur, eftir að hafa verið fréttaritari Berlingske Tidende og Politiken í London í 16 ár.
Um síðustu helgi kom út eftir hana í Danmörku bókin 87 sekúndur, unnin sem bók og átta þátta útvarpsleikrit; í sama mund skilaði hún til útgefanda síns þriðju Nóru Sand-bókinni, en fyrsta bókin í þeim bókaflokki er Stúlkurnar á Englandsferjunni, og þegar við hittumst var hún á leiðinni til Jótlands að kenna við Blaðamannaháskólann í Árósum, hvaðan hún útskrifaðist á sínum tíma.
„Það kom mér reyndar mikið á óvart hvað hlutirnir fóru að gerast hratt, eftir að fyrsta Nóru-bókin kom út,“ segir Lone, sem var á bókamessunni í London á dögunum, í tilefni þess að Stúlkurnar á Englandsferjunni kemur þar út í maí.
„Ég hélt að þegar ég væri hætt að vera fréttaritari, þar sem ég þeyttist um höf og lönd, og yrði rithöfundur, myndi ég sitja ein heima dögum saman og skrifa í rólegheitum – en þannig varð það alls ekki þannig! Vitanlega er rithöfundi gleðiefni að fá að vera með, eins og til dæmis á Glæpamessunni í Horsens í Danmörku, sem haldin var í fangelsinu þar um síðustu helgi. Hinn kosturinn væri að síminn hringdi aldrei og það væri óskemmtileg staða.“
„Nýja bókin, 87 sekúndur, var á við maraþonhlaup, þar sem sífellt er brugðið fyrir mann fæti,“ segir Lone, sem gat ekki mætt með fyrirfram skrifað handrit í útvarpshúsið, heldur þurfti að vinna það fyrir framan opinn hljóðnema. „Vinnudagurinn var þannig að ég mætti á DR [danska ríkisútvarpið] og gekk þar frá viðtölum við fólk sem kom að þessu glæpamáli sem verið var að skrifa um og rannsaka niður í kjölinn. Eftir heilan vinnudag fór ég heim og hélt áfram að skrifa bókina og næsta dag aftur á DR og talaði inn á þættina – svo ég var alveg búin eftir þessa törn.“
Hún tekur þó fram, að þetta hafi verið afar spennandi verkefni að fá upp í hendurnar; að skrifa um sönn glæpamál og meðhöndla þau eftir reglum skáldsögunnar, í beinni útsendingu.
Fréttaritari í London – varstu aðallega í pólitíkinni?
„Mikið í henni, því ég hef fylgst með breskri og írskri pólitík undanfarin 20 ár. Sem dæmi, þá var ég í London þegar John Major féll og Tony Blair var kosinn, en ég fékk líka að fjalla um viðskipti, leikhús, bækur og kvikmyndir – svo að segja allt nema íþróttir, sem ég sá ekki eftir að fá ekki að dekka.“
Lone er fædd á Vestur-Jótlandi og finnur vel fyrir sameiginlegum örlögum Norðurlandaþjóðanna.
„Sagnfræðilega eigum við sameiginlega fortíð og menning okkar er á margvíslegan hátt sú sama. Þessar þjóðir eru mikið til sammála um hvernig samfélag þær vilja og ef við tökum þá staðreynd að norrænar konur eru svona sterkar, þá á það sér rætur alveg aftur til sögualdar. Þegar mennirnir lögðust í víking, þurftu konur að taka stórar ákvarðanir, varðandi rekstur býlisins og afkomu alls fólksins sem tengdist því.
Sem minnir mig á Vikings-sjónvarpsþáttaröðina, sem ég var mjög hrifin af. Svo lenti ég í miklum rökræðum við brasilískan mann, sem sagði það forkastanlegt af BBC, að lúffa fyrir pólitískri rétthugsun og gera konurnar svona sterkar!
Þar neyddist ég til þess að taka hann í smá sögutíma. Að þetta væri hárrétt, að skjaldmeyjarnar hefðu verið til og að konurnar hefðu tekið þátt í „bardaganum“, af hreinni og skærri nauðsyn og þetta væri ekkert sem vonda vinstra liðið hefði fundið upp, heldur hefði þetta verið þeirra veruleiki.“
Hvernig lítur framtíðin út?
„Ég var að skila þriðju Nóru Sand-bókinni, sem í þetta skipti snýst um vúdú-galdra og er byggð á sakamáli frá 2001. Samningurinn hljóðar upp á fjórar bækur, svo það kemur ein í viðbót. Svo koma margar þýðingar út á árinu, meðal annars á Spáni og í Þýskalandi, svo ég fer þangað – og svo er ég að vonast eftir að komast á bókmenntahátíðina á Íslandi í haust!
Ég varð svo ánægð þegar ég frétti að Nóra kæmi út á Íslandi; ég hef alltaf séð það fyrir mér sveipað töfrahulu og lít á ykkur sem ljóðrænasta fólk Norðurlandanna.
Góðar viðtökur bókanna eru ómetanlegar, svo ég er enn að vona að hægt sé að hafa lifibrauð af því að vera rithöfundur – og skrifa svo nokkrar blaðagreinar inni á milli, að gamni. Þar fyrir utan er ég að fara að byggja hús á lóðinni sem ég keypti á Amager – og ætli það taki nú ekki töluvert af tíma mínum og orku. Ég er með arkitekt sem bað mig um að lýsa draumainnréttingunni og eftir að ég gerði það, sagði hún: „Já, þú vilt semsagt hafa eldhúsið og bókaherbergið sambyggt!“
Síminn hennar hringir. Þetta er rektor Blaðamannaháskólans í Árósum, að athuga hvort hún verði ekki klár í slaginn á eftir, því hún á að fara yfir verkefni nemendanna í kvöld og síðan leiðbeina þeim um það sem betur mætti fara næstu daga.
Við kveðjumst og Lone Theils brunar af stað til Jótlands, full hressleika og jákvæðrar orku.