fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024

Vélmenni munu stýra listasýningum í stað manna

Listahópurinn HARD-CORE þróar nýja tækni í sýningarstjórn – Í framtíðinni mun vélkúratorinn ASAHI 4.0 halda sýningar upp á eigin spýtur

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 4. ágúst 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gervigreind og sjálfvirknivæðing er að taka yfir æ fleiri svið samfélagsins og nú vinna nokkrir íslenskir listamenn í samstarfi við erlenda kollega sína að því að sjálfvirknivæða listaheiminn. Hópurinn sem kallar sig HARD-CORE vinnur að því að þróa sýningarstjóra framtíðarinnar, vélmennið ASAHI sem skipuleggur listasýningar upp á eigin spýtur, velur sýningarrými og listaverk úr gagnagrunni sínum og staðsetur þau eftir lögmálum handahófsins frekar en fagurfræðilegum smekk.

HARD-CORE stefnir á að verða hátæknisprotafyrirtæki í anda Apple og fyrirtækja Elons Musk en á sama tíma má segja að það sé performatíft listaverk, sem prófar sig áfram með vinnuaðferðir og rými listheimsins, á sama tíma og það leikur sér með fagurfræði hátækninnar, skoðar takmarkanir mannlegs fegurðarsmekks og svo framvegis.

DV hafði uppi á einum af stofnendum þessa dularfulla listahóps, myndlistarmanninum Sæmundi Þór Helgasyni, og spurði hann út í verkefnið.

Vildu engan sýningarstjóra

„HARD-CORE er alþjóðlegur hópur sem kom fyrst saman í Amsterdam árið 2011 þar sem við vorum að læra saman í Rietveld Academy. Við vorum öll að vinna að með stafræna myndlist í einhverjum mæli og fannst ekki vera mikill skilningur á þannig list í skólanum. Þetta var upphaflega ekki hugsað sem listahópur heldur vildum við hittast utan skóla til að dýpka umræðurnar um verkin okkar, sem okkur fannst ekki nægileg í skólanum. Við kölluðum þetta „hardcore session“ vegna þess hversu langar og intensífar umræðurnar voru,“ útskýrir Sæmundur.

„Þegar við höfðum kynnst verkum hvert annars svona vel langaði okkur að fara að sýna saman. Í kjölfarið byrjuðu þessar pælingar um hvernig við gætum sett sýningar saman. Við þekktum enga sýningarstjóra og vildum raunar ekkert með þá hafa. Viðhorfið okkar var að listamenn þyrftu ekkert á sýningarstjórum að halda. Ég held reyndar að við séum vaxin upp úr þessu núna.“

En þetta er kannski skiljanlegt viðbragð við þeirri þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum og áratugum þegar sýningarstjórinn er farinn að vera í stærra hlutverki en listamaðurinn eða listaverkin. Voruð þið eitthvað að velta þessu fyrir ykkur?

Önnur kynslóð Asahi vél-sýningarstjóra notaði hreyfistýribúnaði og leysiljós til að ákvarða staðsetningu listaverka í sýningarrýminu. Þessi útgáfa vélmennisins var meðal annars notuð í undirbúningi sýningar í  Alpineum Produzentengalerie í  Luzern í Sviss.
Asahi 2.1 Önnur kynslóð Asahi vél-sýningarstjóra notaði hreyfistýribúnaði og leysiljós til að ákvarða staðsetningu listaverka í sýningarrýminu. Þessi útgáfa vélmennisins var meðal annars notuð í undirbúningi sýningar í Alpineum Produzentengalerie í Luzern í Sviss.

Mynd: Hard-core

„Já, ég held að við höfum kannski verið hálfhrædd við það að verða undir einhverjum sýningarstjóra. Við vildum finna kerfi sem myndi ekki upphefja neinn einn aðila heldur skapa algjörlega flatan valdastrúktúr. Fyrst bjuggum við til kerfi til að við gætum stýrt sýningum í sameiningu. Hvert okkar dró nafn annars aðila úr hópnum úr hatti og þurfti að stilla upp skjávarpa með mynd sem afmarkaði svæði sem hann þurfti að vinna með í sýningunni. Svo dró næsti, og svo koll af kolli þar til þetta var komið í hring.“

Handahóf og slembiröðun

„Fljótlega fórum við út í að blanda tækni inn í þessar tilraunar – algóritmum og slembiröðun – og byrjuðum að smíða vélmenni sem við köllum ASAHI. Í upphafi voru þetta nokkuð einfaldir róbotar. Fyrsta vélmennið var smíðað úr myndavél og hreyfistýribúnaði, sem hreyfði myndavélina á handahófskenndan hátt á tveimur ásum og stýrði svo fókusnum. Við þurftum svo að finna þennan handahófskennda fókuspunkt sem vélin valdi og stilla verkinu upp þar. Stundum var þetta einhvers staðar í lausu lofti og stundum jafnvel fyrir utan galleríið. Næsta útgáfa var skilvirkari því þá höfðum við skipt myndavélinni út fyrir leiserljós.“

Gerðist eitthvað áhugavert þegar þið fylgduð þessari fagurfræði handahófsins sem vélin studdist við?

„Já, við lentum kannski í því að það væru nokkur verk á sama fermetranum, eitt í loftinu, og eitt alveg hinum megin. Þetta er eitthvað sem hvorki mannlegum sýningarstjóra né okkur sjálfum hefði dottið í hug að gera. Þannig vorum við að ögra okkar eigin fagurfræði og vilja. Eitt sem þetta leysti voru þær deilur um tiltekin pláss sem geta oft átt sér stað þegar maður sýnir með nokkrum listamönnum, kannski vilja allir nota stóra vegginn með góðu lýsingunni. Með þessu slembivali þurfa allir að samþykkja að þeir fái ekki endilega besta staðinn – og kannski fær enginn besta staðinn og öllum er bara hrúgað saman í einhverja litla kompu.“

Mynd: Hard-core

Mynd: Hard-core

Sjálfvirkt sýningarstjóravélmenni

HARD-CORE hópurinn er þegar farinn að boða komu fjórðu kynslóðar vélkúratorsins, ASAHI 4.0, og ef áætlanir munu ganga eftir mun hinni nýi ASAHI taka á sig stóraukið hlutverk í sýningarstjórninni.

„ASAHI ekki lengur bara vélmenni heldur er það líka orðið að gagnagrunni. Þetta er því tvíþætt. Þetta er gagnagrunnur þar sem listamenn geta sett upp „profile“ með listaverkum eftir sig, mynd og upplýsingar og verkinu. Listastofnanir og aðrir sem eru tilbúnir að hýsa sýningar geta líka skráð sig sem gestgjafa – rýmið sem er boðið fram getur verið frá galleríi og allt niður í vefsíðu eða ísskáp eða hvað sem er. Hugmyndin er að vélmennið velji sjálft einn gestgjafa af listanum, mæti svo á staðinn og skanni rýmið. Það verður búið skynjurum sem skynjar hitastig, ljós, alkóhól, geislavirkni og ýmislegt fleira – og finnur síðan listaverk úr gagnagrunninum sem henta best fyrir rýmið. Vélmennið velur svo titil á sýninguna, opnunartíma, og svo framvegis. Hugmyndin er að þetta geti orðið algjörlega sjálfvirkt kerfi. Þegar einni sýningu er lokið velur vélmennið næsta áfangastað. Draumurinn er að vélmennið muni sækja um styrki til að viðhalda sjálfu sér og flakki svo um upp á eigin spítur og haldi sýningar.“

Hvernig gengur þróunin á gagnagrunninum og vélmenninu sjálfu?

„Það gengur vel með gagnagrunninn. Það eru núna nálægt 200 verk í honum en reyndar bara eitt gallerí. Þetta gengur ansi hægt hjá okkur því að við erum í raun orðin að tækni-sprotafyrirtæki en sinnum á sama tíma öðrum verkefnum. Tæknilega hliðin er líka að verða það flókin að við þurfum meiri mannskap, þurfum að fá í lið með okkur forritara og aðra sem kunna á svona – við erum bara listamenn og engir sérfræðingar í þessum málum.“

Mynd: Hard-core

Svona gæti vélmennið Asahi 4.0 litið út en draumur aðstandenda þess er að einn daginn geti það flakkað um á eigin spýtur og haldið listasýningar.
Næsta kynslóð vél-kúratora Svona gæti vélmennið Asahi 4.0 litið út en draumur aðstandenda þess er að einn daginn geti það flakkað um á eigin spýtur og haldið listasýningar.

Mynd: Hard-core

Fagurfræði tæknigeirans

Hópurinn leikur sér meðvitað með og snýr upp á þá fagurfræði sem hefur þróast hjá fyrirtækjum í tæknigeiranum, gljáfægð naumhyggja og ofursvöl framfaratrúin. Fyrir hönd HARD-CORE heldur persóna að nafni Skyler Lindenberg – sem sögð er framkvæmdastjóri fyrirtækisins – vel æfðar tæknikynningar í anda hálfguða Kísildalsins, Steve Jobs og Mark Zuckerberg.

„Við forrituðum hann í raun og veru til að bregðast við aðstæðum á ákveðinn hátt – og svo fær hann að spinna út frá því. Það hefur hjálpað að hafa þessa persónu sem andlit fyrirtækisins – þá höfum við ekki þurft að finna nýjan valdapýramída eða ákveða hver á að tala fyrir hönd hópsins.“

Þetta virðist vera endurtekið stef í vinnu HARD-CORE, að eyða einstaklingnum og valdapýramídum og verða að einni veru í sameiningu, þetta sést líka í myndböndunum þar sem raddir ólíkra þátttakenda sameinast í einni margræðri marghöfða veru – alheimsklessunni svokölluðu. Af hverju er þetta?

„Til að byrja með veltum við mikið fyrir okkur egóinu í samstarfi og hvernig áhersla á eiginhagsmuni getur oftar en ekki unnið gegn hagsmunum heildarinnar. Það er mikilvægt að ASAHI hugsar ekki um hagsmuni einstaklinga heldur bara um að heildin virki.“

Mér finnst nánast eitthvað trúarlegt við þetta, að gangast við eigin takmörkunum, losna undan einstaklingseðlinu og láta völdin og ákvarðanir í hendur æðri máttarvalda – sem í þessu tilfelli er vélin og algóritmarnir.

„Já, við kjósum að lúta þessu kerfi sem við skópum sjálf. Þetta getur auðvitað líka verið hættuleg hugmynd ef maður hugsar til dæmis um yfirvöld sem eru mögulega að færast í áttina að einhvers konar snjall-yfirvaldi – machine-government. ASAHI dæmir engan og velur hvern sem er inn í sýningar sínar burtséð frá reynslu viðkomandi, kynhneigð, hörundslit og svo framvegis. ASAHI kærir sig ekki um elítur eða vinagreiða. Það er kannski eitthvað trúarlegt við það að allir séu jafnir fyrir vélmenninu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 klukkutímum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Þótti dóttirin vera „of falleg til að geta verið dóttir hans“ – DNA-próf afhjúpaði ótrúlegan sannleikann

Þótti dóttirin vera „of falleg til að geta verið dóttir hans“ – DNA-próf afhjúpaði ótrúlegan sannleikann
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Gerrard sækir sér nýjan aðstoðarmann til Sádí Arabíu

Gerrard sækir sér nýjan aðstoðarmann til Sádí Arabíu
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Sigmundur Davíð vísar frétt Vísis á bug – „Það er stuð á Akureyri!“

Sigmundur Davíð vísar frétt Vísis á bug – „Það er stuð á Akureyri!“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Taka líklega ákvörðun um uppsagnarákvæði Hareide eftir viku

Taka líklega ákvörðun um uppsagnarákvæði Hareide eftir viku
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Telja ættartengsl við formann KSÍ ekki tengjast skoðun Lárusar

Telja ættartengsl við formann KSÍ ekki tengjast skoðun Lárusar
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Andri Hjörvar ráðinn í stórt starf hjá HK

Andri Hjörvar ráðinn í stórt starf hjá HK
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum
Bjarni framlengir við KA