fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Matur

Valgerður reið yfir ummælum um grænmetisætur: „Svipað og að segja að Grýla borði bara rauðhærð börn eða börn innflytjenda“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 29. nóvember 2018 08:10

Valgerður er ósátt við Grýlu og Leppalúða.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mín vegna mega þau segjast vera grænkerar, jólasveinarnir mega kalla sig Bulsusteikir, Tófúkrókur og Hummusgámur og ég myndi reyndar fagna því en ekki grínast á kostnað barna, ekki segjast borða þau því þau eru öðruvísi. Það er ekki fallegt eða í anda jólanna,“ segir Valgerður Árnadóttir, meðstjórnandi í Samtökum grænkera og Pírati. Valgerður var ein af mörgum sem fylgdust með afhjúpun jólakattarins á Lækjartorgi fyrir stuttu en gerir athugasemd við það grín sem Grýla og Leppalúði höfðu uppi við þessa jólalegu athöfn.

„Hér er nákvæmlega það sem þau hjónakornin sögðu:

Grýla: Ég borða bara grænmetisætur.
Leppalúði: Nei, grænmeti.
Grýla: Grænmeti.

Þar sem þetta grin hófst á jólaskemmtunum í fyrra og það var tekin umræða um þetta þá og jólasveinar sem og aðrir beðnir að hætta þessu ósmekklega gríni á kostnað barna þá þótti mér leitt að heyra þetta aftur núna og biðlaði til þeirra að hætta þessu,“ segir Valgerður.

Börnum finnst erfitt að vera öðruvísi

Henni blöskrar slík orðræða og fullyrðir að börn sem eru vegan eða grænmetisætur verði fyrir nægum fordómum þó Grýla og Leppalúði viðhaldi þeim ekki.

„Í samfélaginu okkar er talið norm að vera kjötæta, flestir leikskólar og skólar bjóða aðallega upp á mat með dýraafurðum og börn sem eru grænmetisætur eða grænkerar þurfa að taka með sér nesti. Það eitt og sér að börn borði ekki það sama og hin börnin gerir þau oft að skotspón. Ég er fullorðin og ég þekki það vel að þurfa að svara fyrir það á matmálstímum á vinnustöðum hvers vegna ég borða ekki dýraafurðir. Ég þoli það og tek umræðuna en börn þrá ekkert heitar en að vera eins og hinir, þeim finnst erfitt að vera „öðruvísi“.“

Valgerður segist hafa séð mímörg dæmi um téða fordóma sem valda henni áhyggjum.

„Foreldrar barna sem eru grænmetisætur hafa reglulega samband við mig og segja að börnin verði fyrir fordómum af hálfu starfsfólks í leikskólum og skólum og að þessar stofnanir fari fram á heilbrigðisvottorð sem sýni að barnið sé með mjólkuróþol eða ofnæmi, að öðrum kosti fái þau sama mat og hin börnin.“

Gefur börnum skotleyfi til að stríða

Valgerður deildi gagnrýni sinni á Grýlu og Leppalúða á Facebook og líkti því við að þau hefðu gert grín að því að borða rauðhærð börn eða börn innflytjenda. Skrifaði hún: „Þetta er svipað og að segja að Grýla borði bara rauðhærð börn eða börn innflytjenda.“ Einhverjum fannst þessi samanburður ósanngjarn en Valgerður segir hann vel rökstuddan.

Valgerður berst gegn fordómum í garð grænkera og grænmetisæta.

„Ég tók þetta dæmi vegna þess að flestum finnst rangt að stríða eða hræða börn, sérstaklega þeim sem eru í minnihlutahóp, til dæmis rauðhærð eða af erlendu bergi brotin, en skilja ekki að það er rangt að stríða börnum eða hræða hver svo sem „ástæðan“ er. Hvort sem það er vegna meðfædds eða lærðs eiginleika eða aðstæðna. Sá sem sagðist ósammála þessum samanburði vildi meina að það væri val barnanna, eða foreldranna, að vera öðruvísi en það væri ekki val þeirra sem fæðast rauðhærð. Mér finnst það persónulega bara útúrsnúningur. Börn trúa fullorðnu fólki, þau trúa á Grýlu og jólasveinana og ef þau segja að þau borði bara grænmetisætur þá verða þau hrædd og jafnframt er öðrum börnum gefið skotleyfi á að stríða þeim og hræða.“

Fordómarnir stafa af fáfræði

En hvað er hægt, að mati Valgerðar, til að útrýma þessum fordómum?

„Eins og allir fordómar þá stafa þeir af fáfræði. Fólki hefur verið kennt í tugi ára að það þurfi að gefa börnum kúamjólk, kjöt og fisk til að þau fái alla þá næringu sem þau þurfa, en það er einfaldlega rangt. Grænkerabörn og fullorðnir fá alla þá næringu sem þau þurfa úr sínum mat og koma jafnframt betur út í heilbrigðisskoðunum. Það þarf að fræða fólk til að uppræta fordóma. Við í Samtökum grænkera höfum boðið skólum og stofnunum upp á fyrirlestra um veganisma og grænkerafæði og okkur hefur verið vel tekið, það má hafa samband við okkur,“ segir Valgerður og endar samtalið á að benda á síðuna Vegan jól – uppskriftir og ráð á Facebook. Þar er að finna ýmislegt jólalegt og vegan.

Eftir að Valgerður vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni var myndbrot af Grýlu og Leppalúða segja ofangreindan brandara sýnt í fréttum KrakkaRÚV, nánar tiltekið í gær. Það finnst Valgerði „ótrúlegt“ eins og hún segir í samtali við blaðamann DV.

Facebook-færslu Valgerðar, þar sem hún gagnrýnir orðræðu Grýlu og Leppalúða, má sjá hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
29.03.2024

Þessar matartegundir er hjálplegt að borða áður en þú ferð að djamma

Þessar matartegundir er hjálplegt að borða áður en þú ferð að djamma
Matur
18.03.2024

Rjómalagað pasta með kjúkling og sveppum

Rjómalagað pasta með kjúkling og sveppum
Matur
18.11.2023

„Sælkerar landsins! Sjá ég færi ykkur fögnuð“

„Sælkerar landsins! Sjá ég færi ykkur fögnuð“
Matur
05.11.2023

Guðdómleg perubaka

Guðdómleg perubaka