Samfélagsmiðlastjarnan Sunneva Einarsdóttir er mikil áhugamanneskja um mat og deilir reglulega matarmyndum með tæplega 37 þúsund fylgjendum sínum á Instagram. Í samtali við matarvefinn segist hún vita fátt betra en að borða góðan mat í félagsskapi góðra vina.
„Frá því að ég var lítil var ég alltaf að fylgjast með mömmu í eldhúsinu og vildi mikið hjálpa við eldamennsku og bakstur. Ég hef alltaf elskað mat og það er sennilega eitt af mínum áhugamálum, ef ég spái þannig í því. Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara út að borða, góðan mat í góðum félagsskap. Ég hef líka mjög gaman að því að fá fólk í mat til mín því ég elska að elda, þá sérstaklega fyrir aðra,“ segir Sunneva, sem er dugleg að prófa sig áfram í eldhúsinu.
„Þegar ég elda þá er ég alltaf að prófa mig áfram með flóknari og flóknari uppskriftir. Ég hef oft sagt að draumurinn sé að opna mitt eigið veitingahús en ég held að það verði ekkert úr því,“ segir hún og hlær. „Ég hef mikið verið að deila skemmtilegum og hollum uppskriftum, sem ég hef þróað sjálf, á samfélagsmiðlunum mínum. Fólk hefur gríðarlegan áhuga á því, sem mér finnst mjög gaman.“
Sunneva segir að frystirinn sinn sé troðfullur af frosnum ávöxtum en auk þess passar hún að eiga alltaf egg, lárperu og kjúkling í eldhúsinu. Þegar talið berst að svokölluðum huggunarmat, eða kósí mat, stendur ekki á svörunum hjá samfélagsmiðlastjörnunni.
„Það væri pítsa. Ég er mjög mikill aðdáandi pítsu. Það er mjög skrýtið ef ég fæ mér ekki pítsu að minnsta kosti einu sinni í viku. Vinir mínir vilja meina að ég sé 90% pítsa,“ segir Sunneva og brosir. Pítsan yrði jafnframt fyrir valinu ef hún yrði að velja sér eina máltíð til að borða það sem eftir lifir ævinnar.
„Það fyrsta sem ég hugsaði var naut og bernaise, en það væri kannski of mikið af því góða. Ég held að ég velji gömlu, góðu pítsuna. Ég fæ ekki nóg. Það er svo mikið hægt að gera með pítsur. Venjuleg, sæt eða bragðsterk. Ég gæti unnið með það.“
Það kemur því líklegast ekki á óvart að ef Sunneva myndi láta verða af því að opna sinn eigin veitingastað, þá myndi ítalskur staður verða fyrir valinu.
„Eins og er kannski búið að koma fram nokkuð oft þá elska ég pítsur og er einstaklega góð í að gera góða pastarétti. Ég myndi annað hvort opna ítalskan stað eða steikhús ef ég væri kokkur, sem ég hef oft velt fyrir mér að verða. Jafnvel bæði.“
Svar hennar við spurningunni um hvernig persónuleiki hennar yrði túlkaður í mat kemur heldur ekki á óvart.
„Minn persónuleiki sem matur væri sennilega pítsa, þó ég geti ekki komið með útskýringar af hverju. Það er allt betra með pítsu. Flestir sem þekkja mig vita hversu mikið ég elska pítsur.
Sunneva segist alls ekki vera matvönd, en þó er hún ekki mikið fyrir svínakjöt. Hún er heldur ekki mikill nammigrís en finnst gaman að smakka mismunandi eftirrétti.
„Uppáhalds eftirrétturinn minn væri sorbet ís með kannski má súkkulaði „fudge“. Mér finnst gaman að smakka eftirrétti en ég ætti erfitt með að fara í gegnum heilan eftirrétt ein – ég fæ fljótt nóg. Mín sakbitna sæla er klárlega snakk og heimagert guacamole,“ segir Sunneva.
Eins og áður segir er Sunneva gríðarlega vinsæl á samfélagsmiðlum og fyrirmynd margra, ungra kvenna í dag. Hún segist ekki finna fyrir sérstakri pressu að borða hollan mat og halda sér í góðu, líkamlegu formi. Það gerir hún frekar af ánægju en skyldu.
„Það er mjög gaman hvað fólk hefur mikinn áhuga á hollu mataræði og það hvetur mig til þess að prufa mig áfram með hugmyndir að hollum réttum. Mér hefur alltaf fundist ótrúlega gaman að hreyfa mig og mér finnst ekkert skemmtilegra en að ögra sjálfri mér. Að fara á æfingar er eitthvað sem ég geri sem áhugamál. Ég reyni að borða í hollari kantinum bara til þess að hugsa vel um líkamann minn og næra mig rétt. Ég borða alls ekki bara hollt. Ég er mjög dugleg að dekra við sálina með gúmmelaði, trúiði mér,“ segir Sunneva og bætir við að henni finnist mikilvægt að hlusta vel á líkamann.
„Þegar mig langar í eitthvað þá fæ ég mér það, sama hvað það er. Ég er ekki með góða sjálfsstjórn en ég held mér í jafnvægi með því að hlusta bara á líkamann minn. Nema þegar það kom frétt um kókosolíu að hún væri slæm fyrir mann, þá hætti ég að setja hana út í grautinn. Það getur vel verið að það sé bull en það festist,“ segir hún og hlær.
Talið berst að matartengdum minningum og þá rifjast upp fyrir Sunnevu falleg og góð stund á Balí.
„Þegar ég og besta vinkona mín vorum í Ubud á Balí, einar á fjögurra stjörnu veitingastað í regnskógi, pöntuðum svona tíu rétti á mann og sátum þarna í svona fjóra til fimm tíma. Mjög gott kvöld, mjög góður matur og frábær félagsskapur. Þarna uppgötvuðum við ást okkar á bruschetta, sem ég hef verið að reyna að fullkomna sjálf. Besta bruschetta sem ég hef smakkað var á Balí.“
Við getum alls ekki sleppt þessari fjölhæfu konu án þess að spyrja hvernig fullkominn dagur væri, matarlega séð.
„Prótein pönnukökur með frosnum hindberjum í morgunmat, mexíkóskur í hádeginu, helst mjög bragðsterkur og að lokum naut og rautt í kvöldmat. Svo kvöldsnarl, það má ekki gleyma kvöldsnarlinu, ostar og vínber. Það væri mjög fullkominn dagur.“