„Þetta er ofboðsleg klassík. Þetta er sú karamella sem enn þá stendur upp úr og flestir hættir að framleiða karamellur á Íslandi. Freyju karamellan hefur staðið allt af sér. Það er alveg sama hvað hefur verið reynt með innflutning og annað. Það er mjög sérstakt að hún hafi alltaf haldið velli miðað við það sem hefur gengið á,“ segir Ævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar Freyju um eina elstu framleiðsluvöru fyrirtækisins, sjálfa Freyju rjómakaramelluna.
Hvaða sælgæti eigum við að taka í sögulega yfirferð næst? Skrunið neðst til að taka þátt í könnuninni.
Sælgætisgerðin Freyja var stofnuð árið 1918 af fjórum, ungum athafnamönnum; þeim Magnúsi Þorsteinssyni, kökugerðarmeistara, Þorbergi Kjartanssyni, kaupmanni, Brynjólfi Þorsteinssyni frá Akureyri og sænska kökugerðarmeistaranum Allan Jönson. Ein af fyrstu vörunum sem Freyja framleiddi var Freyju rjómakaramellan. Fyrstu áratugina var karamellan þrefalt stærri en hún er í dag en að sögn Ævars var karamellan minnkuð í kringum árið 1968.
„Það var aðallega vegna þess að hún gat hreinlega kæft fólk, þá sérstaklega börn sem lögðu sér hana til munns,“ segir Ævar. Hann segir líklegt að ástæða fyrir stærðinni hafi verið sú að vélarnar sem keyptar voru erlendis frá til að framleiða karamellurnar hafi einfaldlega boðið upp á að framleiða svona stórar karamellur.
„Ég held að við mættum hreinlega ekki hafa hana svona stóra í dag. Í gamla daga var hún oft kölluð HK karamella, eða Haltu kjafti karamellan,“ segir Ævar og hlær.
Í árdaga Freyju karamellunnar var hún pökkuð inn líkt og um pakka væri að ræða og hún seld í stykkjatali. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem farið var að snúa upp á endana á umbúðunum eins og við þekkjum í dag. Karamellan var fyrst um sinn pökkuð inn í vaxpappír.
„Þetta var pappír sem vax var borið á svo endarnir brotnuðu ekki og svo hornin sem pökkuðust undir karamelluna risu ekki upp aftur. Það var feyknamál að finna prentsmiðju sem gat gert þetta, að vaxbera pappírinn eftir að búið var að prenta á hann. Umbúðirnar voru með sama útliti og þær hafa í dag, með grænni rönd en svörtu rendurnar komu inn seinna til að ramma þetta aðeins inn.“
Ævar rifjar það upp að á fyrstu árum framleiðslu karamellunnar hafi fólk getað safnað umbúðunum og fengið karamellur í skiptum fyrir visst mörg karamellubréf hjá Freyju.
Eins og áður segir hófst framleiðsla karamellunnar fljótlega eftir stofnun Freyju árið 1918. Ævar segir að framleiðsluferlið í sjálfu sér hafi ekki breyst mikið á þessum hundrað árum en að tæknin geri Freyju vissulega kleift að framleiða talsvert fleiri karamellur á dag en fyrir einni öld.
„Í dag er blandan soðin í lokuðum pottum en í denn var hún soðin í opnum pottum, nánast eins og er gert á eldavél. Í þá daga var náttúrulega allt handgert og ég býst við að karamellurnar hafi verið handpakkaðar. Í dag er þetta allt gert í vélum enda gæti framleiðslan aldrei staðið undir sér með gömlum aðferðum. Ætli við framleiðum í dag ekki 160 til 170 karamellur á mínútu,“ segir Ævar.
Í kringum 1988-9 komu tvö ný afbrigði af karamellunum á markað, lakkrískaramellan annars vegar og kakókaramellan hins vegar. Þær eru enn þá til í dag og seldar í stykkjatali í nammibörum verslana.
„Þær gengu mjög vel, sérstaklega í byrjun,“ segir Ævar um nýjungarnar. „Fólk vill oft prófa nýjungar en þær lifa ekki jafnvel og orginalinn.“
Rjómakaramellurnar voru seldar í stykkjatali fram til sirka 1990 þegar farið var að selja þær í pokum, þó þær séu enn þá fáanlegar í stykkjatali. Til að fagna 100 ára afmæli rjómakaramellunnar voru pokarnir teknir í andlitslyftingu fyrir stuttu.
„Freyju karamellan hefur í raun haldið sínu útliti alla tíð og við höfum aldrei farið í stórkostlegar breytingar á umbúðunum. Við vorum að breyta pokanum núna aðeins en karamellan heldur samt sinni sérstöðu, þessu græna útliti, sem er mjög svipað og það var fyrir hundrað árum síðan.“
Ævar segir bragð karamellunnar nánast ekkert hafa breyst í áranna rás.
„Bragðið af henni er mjög svipað og það var þegar framleiðsla hófst. Á einhverjum tímapunkti var erfitt að fá rétta bragðefnið, en það tókst fyrir rest,“ segir Ævar og bætir við að sala karamellunnar hafi vissulega rokkað upp og niður yfir þessi hundrað ár.
„Hún hefur aldrei farið af markaði en það er misjafnt hvað hefur verið gert fyrir hana í markaðssetningu og öðru. Hún heldur sínu og er í áskrift hjá mörgum. Núna er hún að sækja mjög í sig veðrið og hefur verið gríðarleg aukning í sölu á Freyju karamellunni undanfarið,“ segir Ævar. En var einhvern tímann tvísýnt um framtíð karamellunnar öll þessi ár?
„Nei, það hefur verið mjög góð sala í henni alla tíð. Eigum við ekki að vona að hún endist í hundrað ár í viðbót?“
Ævar segist finna mikinn mun á hvernig fólk notar karamelluna og er hún ekki einungis notuð sem eitthvað til að maula á yfir sjónvarpinu.
„Nei, fólk notar hana í fleira. Til dæmis í bombusósu þar sem bombur, karamellur, suðusúkkulaði og rjómi er brætt saman í potti. Sú sósa er algjört dúndur út á ís. Við gáfum út bækling fyrir einhverjum árum með uppskrift að þessari sósu og salan á karamellum jókst gríðarlega,“ segir Ævar og stenst ekki mátið að deila einni gamalli og góðri sögu tengdri Freyju karamellum áður en þessari sögulegu yfirferð lýkur.
„Maður sem var kallaður Hemmi túkall hér í gamla daga var götusópari og bakari. Hann sópaði oft göturnar á Lindargötunni,“ segir Ævar, en í árdaga Freyju var starfsemin til að mynda að Lindargötu 14 og síðar Lindargötu 12. „Hemmi kom inn og spurði hvort ekki væri til sælgæti handa honum. Hann var svolítill nurlari. Þá var honum gefinn afgangur af Freyju karamellum, sem sagt deigið sjálft. Hann tók það og fór út. Stuttu síðar þurfti starfsmaður að fara út í búð og sá þá karlinn upp við húsvegg þar sem hann var að reyna að draga karamelluna úr fölsku tönnunum,“ segir Ævar og skellihlær er hann rifjar upp þetta eftirminnilega atvik sem gerðist í kringum árið 1970.