„Ég fæ eiginlega allt of margar hugmyndir, er með margar í gangi í einu og sumar verða kannski einhvern tímann að bók en aðrar ekki. Ég les mjög mikið um mat og á ansi stórt matreiðslubókasafn,“ segir hinn rómaði matgæðingur Nanna Rögnvaldardóttir. Nýlega kom út bókin Beint í ofninn eftir Nönnu, en hún er mörgum Íslendingum að góðu kunn fyrir sínar girnilegu og fróðlegu matreiðslubækur.
Beint í ofninn er matreiðslubók fyrir alla sem eru önnum kafnir eða vilja ekki eyða löngum tíma í eldhúsinu, en langar samt að bera fram hollan og góðan mat sem eldaður er frá grunni. Í bókinni er miðað við að fólk kveiki á ofninum og hafi lokið öllum undirbúningi þegar hann er orðinn heitur. Þá er bara eftir að stinga réttinum í ofninn og huga að öðru því maturinn sér um sig sjálfur.
Nanna segir bókina í raun svipaða bók sem hún gaf út fyrir áratug.
„Hún er reyndar byggð upp á sama hátt og bókin Maturinn hennar Nönnu, sem kom út fyrir tæpum tíu árum, til skiptis ein opna með frekar einfaldri uppskrift og mynd og svo önnur opna með alls konar tilbrigðum við uppskriftina, hvað hægt sé að nota í staðinn fyrir tiltekið hráefni og svona, hvernig breyta megi kjötrétti þannig að hann verði vegan, eða öfugt, hvernig nýta megi afganga, einfalda undirbúning og þess háttar. En að auki er þarna miðað við að allt fari bara beint í ofninn í einu móti og sjái eiginlega um sig sjálft,“ segir hún.
Margir Íslendingar eiga matreiðslubók eftir Nönnu upp í hillu og hefur verið mjög iðin við kolann síðustu ár. Því liggur beinast við að spyrja hvort henni fallist aldrei hendur þegar hún vinnur að nýrri bók. Það stendur ekki á svörunum.
„Nei, mér fallast aldrei hendur, ef eitthvað virðist stefna í ógöngur finn ég aðra lausn. Stundum breytist það sem ég er að vinna að algjörlega í miðju kafi, hvort sem það er bókarhugmynd eða einstök uppskrift. En auðvitað geri ég mistök, það vantar ekki. Þau enda þó afar sjaldan í ruslatunnunni,“ segir Nanna og hlær.
En getur hver sem er eldað?
„Mig langar til að segja já en ég held ekki,“ segir hún kankvís og heldur áfram. „Þegar ég var yngri var alltaf sagt við mig „það geta allir lært að syngja“ eða „það geta allir lært stærðfræði“ en ég hélt áfram að vera laglaus og falla í stærðfræði svo að það virkaði allavega ekki. Ég held að það sé svipað með eldamennsku, ég þekki fólk sem gæti ekki soðið egg þótt það ætti lífið að leysa og annað sem hefur eldað daglega í fimmtíu ár og tekst alltaf að klúðra. En flestir geta eldað góðan mat; sumir þurfa að fara nákvæmlega eftir uppskriftum, aðrir læra að spinna út frá þeim og svo eru þeir sem aldrei nota uppskrift. Sumir þeirra síðastnefndu eru frábærir kokkar en í þeim hópi er líka fólk sem gerir allt af fingrum fram og klúðrar því meira og minna. Ætli það sé ekki versta blandan, allavega fyrir þá sem þurfa að borða matinn,“ segir hún og brosir.
Hvað með alla fjölskyldumeðlimi, frá þeim yngstu til elstu óháð hæfileika í eldhúsinu – geta allir tekið þátt í matseldinni?
„Mér finnst mikilvægast að allir séu með í ferlinu, ef svo má segia – geti komið með hugmyndir um hvað eigi að hafa í matinn eða baka, fái að fylgjast með undirbúningi og að öllum, líka ungum börnum, sé leyft að gera það sem þau vilja, innan skynsamlegra marka auðvitað,“ segir Nanna og bætir við að henni finnist mikilvægt að yngsta kynslóðin fái fróðleik frá sér eldra fólki í eldhúsinu.
„Að þau fái útskýringar – þetta grænmeti heitir kúrbítur, hann er harður núna en ef við skerum hann í sneiðar og steikjum hann verður hann mjúkur og góður – eitthvað í þeim dúr. Að þau fái að sjá hvernig maturinn tekur breytingum, sjá gegnum gluggann á ofnhurðinni hvernig kökurnar lyfta sér og svo framvegis. Eins er auðvitað frábært ef börn fá að taka þátt í einhverri ræktun, til dæmis á grænmeti eða kryddjurtum, og nota það sem þau hafa sjálf átt þátt í að skapa í mat sem þau búa til. Ég held að það sé mikilvægt að sem flestir átti sig á því frá unga aldri að matargerð er ákveðið ferli sem getur verið mjög skemmtilegt og ánægjulegt. Það gerist ekki ef maður fær ekki að taka þátt í því, nema kannski einhverjum leiðinlegum kvöðum. Það fær enginn áhuga á matargerð af því einu að flysja kartöflur.“
Svo eru það þeir sem beinlínis hræðast eldhúsið, treysta sér ekki í einföldustu matseld og stíga ekki nálægt eldavélinni. Lumar Nanna á einhverju ráðum fyrir þennan hóp?
„Ekki byrja á tilraunastarfsemi. Byrja á einhverju einföldu og þrautreyndu, fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum, og ná tökum á því. Ef maður ætlar að baka brauð er gróft súrdeigsbrauð kannski ekki rétti byrjunarpunkturinn; frekar einfalt hveitibrauð – bara hveiti, vatn, ger og salt – og þegar það hefur heppnast vel nokkrum sinnum getur maður haldið áfram, farið að bæta einhverju við smátt og smátt eða skipta út hráefnum. Og um að gera að lesa sér til og leita að hugmyndum, þær eru svo aðgengilegar núna – í bókum, blöðum, sjónvarpi og á netinu,“ segir Nanna. En hvað með næstu bók – er Nanna strax komin með hugmynd að henni?
„Já, ég er komin með nokkrar hugmyndir – eða reyndar er ég með eina grunnhugmynd sem ég er að vinna í en get farið nokkrar mjög ólíkar leiðir, sé til hvernig spilast úr þessu. Kannski geri ég svo eitthvað allt annað. En það yrði í öllu falli mjög ólík bók.“